- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Okkar Kópavogur
- Heimili
- Fatlað fólk
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
- Umsóknir og eyðublöð
Stefna stjórnsýslusviðs byggir á heildarstefnu Kópavogsbæjar https://www.kopavogur.is/heimsmarkmidin sem samanstendur af hlutverki, framtíðarsýn, gildum auk yfirmarkmiða sem eru fengin úr Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Starfsfólk stjórnsýslusviðs starfar eftir gildum Kópavogsbæjar sem eru:
UMHYGGJA - FRAMSÆKNI - VIRÐING – HEIÐARLEIKI
Stefna stjórnsýslusviðs var unnin af sviðsstjóra og starfsfólki sviðsins. Stefnan var lögð fyrir bæjarráð og samþykkt á fundi bæjarstjórnar þann 12.10.2021.
Sviðsstjóri stjórnsýslusviðs Kópavogsbæjar hefur frumkvæði að mótun stefnunnar og að fram fari reglulegt endurmat. Sviðsstjóri ber ábyrgð á framkvæmd hennar í samstarfi við stjórnendur og annað starfsfólk sviðsins. Á grundvelli stefnunnar er unnin aðgerðaráætlun til eins árs í senn, en henni er ætlað er að koma þeim markmiðum sem sett eru fram í stefnunni til framkvæmdar. Gæðamarkmið eru sett ár hvert og skulu þau m.a. nýtast sem smærri skref til að fylgja eftir aðgerðaráætlun. Stefnan og aðgerðaáætlun eru endurskoðaðar reglulega.
Stefnan hefur til hliðsjónar aðrar stefnur, samþykktir og áætlanir Kópavogsbæjar svo sem: Bæjarmálasamþykkt, gæðastefnu, innkaupastefnu, persónuverndarsamþykkt, Barnasáttmála SÞ og innleiðingu Heimsmarkmiðanna, lýðheilsustefnu, jafnréttis- og mannréttindaáætlun, menningarstefnu, aðalskipulag, loftslagsstefnu og samgöngustefnu.
Auk stefnu sviðsins þá tilheyra eftirfarandi stefnur stjórnsýslusviði: Bæjarmálasamþykkt, gæðastefna, öryggissamþykkt, vefstefna, vafrakökustefna, persónuverndarsamþykkt, Barnasáttmáli SÞ, Heimsmarkmiðin í Kópavogi (heildarstefna Kópavogs), lýðheilsustefna, skjalastefna, jafnréttis- og mannréttindaáætlun,menningarstefna, mannauðsstefna.
Stjórnsýslusvið Kópavogs ber ábyrgð á virkni stjórnkerfis og miðlægrar þjónustu Kópavogsbæjar samkvæmt þeim reglum sem bæjarstjórn setur. Markmið sviðsins er að starfsemi þess sé árangursdrifin og framsækin og grundvallist á sérfræðiþekkingu og þverfaglegu samstarfi.
Starfsfólk stjórnsýslusviðs sýnir umhyggju, heiðarleika og virðingu í verki gagnvart íbúum Kópavogsbæjar, samstarfsfólki og öðrum hagsmunaaðilum.
Stefnan byggir á þremur stefnuáherslum. Í hverri stefnuáherslu eru tilgreind þrjú meginmarkmið sem aðgerðaáætlun tekur mið af með mælanlegum markmiðum og aðgerðum.
Stjórnsýslusvið tryggir virkt stjórnkerfi með fjölbreyttri, skilvirkri og viðeigandi þjónustu við íbúa, bæjarstjórn, ráð og nefndir bæjarins, starfsfólk, stofnanir, og aðra hagsmunaaðila.
Stjórnsýslusvið stuðlar að samræmdri stefnumótun Kópavogsbæjar með hag íbúa og sjálfbærni að leiðarljósi, og styður við fagsviðin hvað varðar stefnumiðaða áætlanagerð svo sem með verkefnastjórn, árangursmælingum, aðgengi að upplýsingum, upplýsingaöryggi og vottuðu gæðakerfi.
Stjórnsýslusvið leggur áherslu á að allar ákvarðanir séu vel undirbúnar og lögmætar. Stefnt er að því að öll gögn máls liggi fyrir með góðum fyrirvara og til staðar sé þekking og færni til að tryggja að allar ákvarðanir séu í samræmi við lög, reglur Kópavogsbæjar og samþykkta verkferla. Stjórnsýslusvið tryggir að til staðar séu viðeigandi stjórnunarkerfi og að öryggi upplýsinga og varðveisla þeirra sé ávallt fyrir hendi.
Stjórnsýslusvið stuðlar að innleiðingu samræmdra stefnumiðaðra stjórnarhátta í allri starfsemi Kópavogsbæjar með tengingu við gæðamarkmið, fjárhagsáætlanir og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
Stjórnsýslusvið leiðir mannauðsmál Kópavogsbæjar og stuðlar að faglegri nálgun þeirra í samstarfi við fagsviðin. Stuðlað er að sí-og endurmenntun starfsfólks til að viðhalda færni og tryggja góða þjónustu við íbúa. Stefnt er að endurskoðun mannauðsstefnu sem gildir fyrir öll svið bæjarfélagsins.
Stjórnsýslusvið leggur áherslu á nýsköpun og tileinkar sér tækninýjungar í starfsemi sinni með það að markmiði að veita þjónustu sem tekur mið af þörfum íbúa hverju sinni.
Stjórnsýslusvið heldur utan um þróun og viðhald vísitalna, mælaborða, og mælinga um framgang mála og verkefna hjá Kópavogsbæ, auk þess að nýta sér innlendar sem alþjóðlegar samanburðarmælingar. Starfsfólk stjórnsýslusviðs leiðir, í samstarfi við fagsviðin og sérfræðinga, nýsköpun og framþróun á þessu sviði, hvort sem er á sviði tækninnar eða mælinga.
Stjórnsýslusvið vill auka stafræna þjónustu við íbúa á vef bæjarins og/eða með þjónustuappi, og horfa sérstaklega til frekari þróunar í velferðartækni og nýtingu stafrænnar tækni í skólum. Stefnt er að því að efla stafræna fræðslu starfsfólks og skoða innleiðingu fræðslukerfis. Öll tækni skal metin með hliðsjón af skilvirkni, bættum gæðum, gagnsæi og auknu öryggi.
Stjórnsýslusvið leggur áherslu á innleiðingu árangursmælinga í starfsemi bæjarins og þjálfun starfsfólks því tengdu, frekari innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærni auk þess að stuðla að framgangi Kópavogsbæjar sem barnvænt samfélag.
Stjórnsýslusvið hugar að frekari innleiðingu íbúalýðræðis þar sem allir íbúar hafi tækifæri til áhrifa. Stefnt skal að því að íbúalýðræði sé virkt og aðgengilegt fyrir alla íbúa.
Stjórnsýslusvið leitast við að auka lífsgæði íbúa Kópavogs í samfélagi þar sem hugað er að vellíðan, heilsu, fjölbreyttu menningar- og listalífi, fræðslu og miðlun fróðleiks og viðeigandi upplýsinga um þjónustu bæjarins.
Kópavogur hefur sett sér jafnréttis- og mannréttindastefnu. Stjórnsýslusvið hefur það að markmiði að veita stuðning og eftirlit með framkvæmd hennar.
Kópavogur hefur sett sér menningarstefnu. Öflugt og fjölbreytt menningarlíf styrkir bæjarbrag, eykur víðsýni og örvar samfélagið í heild sinni. Í menningarstarfi í Kópavogi er stefnt að virkari þátttöku almennings ekki síst barna og ungmenna þar sem áhersla verður lögð á að menningar- og listalíf bæjarfélagsins sé aðgengilegt öllum og eigi sér stað í öllum hverfum bæjarins. Leitast er við að færa bæjarbúum og öðrum menningarupplifun eins og hún gerist best hverju sinni í samstarfi við innlenda og alþjóðlega lista- og vísindamenn.
Kópavogur hefur sett sér lýðheilsustefnu og tekur þátt í verkefninu Heilsueflandi samfélag. Stjórnsýslusvið mun leggja áherslu á virkan stuðning og eftirlit með framkvæmd lýðheilsustefnu sem miðar að því að efla heilsu og líðan íbúa, jafnt líkamlega, andlega og félagslega heilsu. Stjórnsýslusvið styður við fagsviðin varðandi hin ýmsu lýðheilsuverkefni, áætlanir og árangursmælingar.
Stjórnsýslusvið hefur það að markmiði að upplýsingar á vef séu aðgengilegar og aðlagaðar að ólíkum þörfum hópa fólks. Stefnt skal að því að auka upplýsingaflæði úr starfsemi bæjarins svo sem með því að auka vægi samfélagsmiðla og kynningarefnis.
Samþykkt á fundi bæjarstjórnar þann 12.10.2021.
Takk fyrir!
Ábending þín er móttekin