Á fundi skipulagsnefndar 28. júní 2006 var lögð fram til kynningar drög að deiliskipulagi Glaðheimasvæðisins.
Á fundi skipulagsnefndar 1. ágúst 2006 var lögð fram tillaga KRark. að deiliskipulagi verslunar- og þjónustusvæðis á Glaðheimasvæðinu.
Á fundi skipulagsnefndar 7. nóvember 2006 er tillagan samþykkt ásamt umsögn bæjarskipulags dags. 30. október 2006 og vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar.
Á fundi skipulagsnefndar 17. mars 2009 er fallið frá tillögunni vegna breytinga á Svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2001 – 2024.
Á fundi skipulagsnefndar 17. mars 2009 eru lögð fram til kynningar drög bæjarskipulags Kópavogs að deiliskipulagi Glaðheimasvæðisins, sem byggir á hugmyndum lóðarhafa norðursvæðis reitsins um útfærslur sem unnar hafa verið af teiknistofunni Arkís og lagðar eru til grundvallar skipulags norðursvæðisins. Deiliskipulagstillagan nær til suður- og norðursvæðisins.
Deiliskipulagssvæðið nær til 12,5 ha lands og afmarkast af Reykjanesbraut til vesturs, Bæjarlind í norður, Bæjarlind 1-3 og athafnasvæði við Akra- og Askalind til austurs og fyrirhuguðum Arnarnesvegi til suðurs. Innan marka þess er nú athafnasvæði Hestamannafélagsins Gusts; hesthús og gerði, skeiðvöllur og reiðskemma. Samkvæmt fasteignamatsskrá eru á svæðinu um 12,500 m2 í sérhæfðu húsnæði. Í tillögunni felst að opið svæði til sérstakra nota (hesthúsahverfi) er breytt í svæði fyrir verslun og þjónustu.
Aðkoma verður að svæðinu frá Bæjarlind, Lindarvegi og frá Arnarnesvegi. Einnig er gert ráð fyrir nýjum undirgöngum undir Reykjanesbraut fyrir bæði gangandi og akandi umferð frá Hæðasmára. Um svæðið liggur ný tengibraut frá Arnarnesvegi að Bæjarlind.
Áætlað er að á svæðinu verði byggðir um 100.000 m2 í húsnæði sem verður 2ja hæða og allt að 32 hæðir. Einnig er áætlað að byggðar verði um 245 íbúðir í austurhluta norðursvæðis. Áætluð nýting svæðisins er 1,25 en nýting einstakra reita eða lóða innan þess verður á bilinu 1,0 til 2,3. Áætlað er að á svæðinu verði um 4,200 bílastæði eða 1 stæði á hverja 35 m2 í húsnæði. Miðað er við að stór hluti bílastæða verði í bílgeymslum neðanjarðar.
Tillagan er sett fram á uppdráttum í mkv. 1:1000 ásamt skýringarmyndum dags. 10 mars 2009.
Vísað er jafnframt í áfangaskýrslu um umferðarsköpun og áhrif á gatnakerfi dags. desember 2007 frá Almennu verkfræðistofunni, minnisblað um umferð dags. 6. október 2008 um deiliskipulag Reykjanesbrautar og greinargerð með breytingu á Svæðisskiplagi höfuðborgarsvæðisins 2001 – 2024.
Tillagan byggir á Aðalskipulagi Kópavogs 2000 – 2012 með síðari breytingum samþykkt í B – deild Stjórnartíðinda 16. febrúar 2009. Þar er gert ráð fyrir því að opið svæði til sérstakra nota er breytt í svæði fyrir verslun og þjónustu og áætlað að á svæðinu verði byggt í heildina um 130.000 m2 verslunar og þjónustuhúsnæðis, sem verður að hluta háreist. Gert er ráð fyrir um 28.000 m2 í íbúðarhúsnæði eða um 245 íbúðum.
Tillagan er lögð fram og kynnt.