Umhverfis- og samgöngunefnd

176. fundur 17. september 2024 kl. 16:30 - 18:55 á Digranesvegi 1, Vatnsenda 1. hæð
Fundinn sátu:
  • Bergur Þorri Benjamínsson formaður
  • Guðjón Ingi Guðmundsson varaformaður
  • Svava Halldóra Friðgeirsdóttir aðalmaður
  • Jane Victoria Appleton aðalmaður
  • Indriði Ingi Stefánsson aðalmaður
  • Leó Snær Pétursson áheyrnarfulltrúi
  • Sigurlaug Kristín Sævarsdóttir áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Birkir Rútsson deildarstjóri gatnadeildar
  • Ásthildur Helgadóttir sviðsstjóri umhverfissviðs
  • Guðrún Edda Finnbogadóttir skrifstofustjóri umhverfissviðs
Fundargerð ritaði: Guðrún Edda Finnbogadóttir skrifstofustjóri umhverfissviðs
Dagskrá

Almenn erindi

1.2003236 - Borgarlínan í Kópavogi. Rammahluti aðalskipulags.

Lögð fram tillaga að rammahluta Aðalskipulags Kópavogs 2019-2040, Borgarlínan í Kópavogi, fyrir fyrstu lotu Borgarlínu frá Fossvogsbrú að Hamraborg dags. í ágúst 2024. Rammahlutinn er unninn af VSÓ ráðgjöf fyrir Kópavogsbæ. Viðfangsefni tillögunnar er nánari útfærsla fyrir Borgarlínuna í Kópavogi. Þar er lögð fram tillaga að legu, staðsetningu stöðva, áherslum á forgang og skipulag göturýmis. Jafnframt eru kynnt þau viðmið sem líta ber til við útfærslu Borgarlínunnar, hvort sem er í deiliskipulagi göturýmis eða hönnun innviða Borgarlínunnar. Rammahlutinn um 1. lotu Borgarlínunnar er ítarlegri stefna tillögu að Aðalskipulagi Kópavogs 2019-2040 til að tryggja framfylgd meginmarkmiða skipulagsins um Borgarlínuna. Viðfangsefni tillögunnar eru liður í því að stuðla að framfylgd samgöngusáttmála ríkis- og sveitarfélaganna og tryggja framfylgd samgönguáætlunar 2020-2034.

Þá er einnig lögð fram samantekt þeirra umsagna og athugasemda sem bárust er frumdrög Borgarlínu og vinnslutillaga að rammahluta aðalskipulags voru forkynnt árið 2021, dags. í nóvember 2023.

Stefán Gunnar Thors, sviðsstjóri Umhverfis og skipulags hjá VSÓ ráðgjöf gerir grein fyrir erindinu.
Lagt fram og kynnt. Umhverfis og samgöngunefnd styður niðurstöðu Skipulagsráðs frá 16. september sl. að tillaga að aðalskipulags verði auglýst. Áfram verði haft víðtækt samráð við íbúa í framhaldinu.


Bókun:
Undirritaður styður áform um Borgarlínu heilshugar sem gerir þá staðreynd sorglega að í ferlinu skuli fulltrúum bæjarbúa í Umhverfis- og samgöngunefnd hafa verið gert ófært að uppfylla hlutverk sitt í erindisbréfi að koma að stefnumótun í almenningssamgöngum, líkt og óskað var sérstaklega eftir á 167. fundi Umhverfis- og samgöngunefndar þann 19. september 2023. Mun betra og lýðræðislegra hefði verið að nefndin fengi að koma með tillögur að samningsmarkmiðum bæjarins. Líta hefði þurft á það með mun heildrænni þætti og fara í umbætur á löggæslu til að taka á háskaakstri og hindrunum á hjólastígum. Hvað varðar ábendingar bæjarbúa færi vel ef reynt væri að taka málefnalega á þeim.
Indriði I. Stefánsson

Eftirtalin taka undir bókun Indriða:
Jane V. Appleton
Sigurlaug Kristín Sævarsdóttir
Leó Snær Pétursson
Fundarhlé hófst 18:06, fundi framhaldið kl.18:13

Gestir

  • Stefán Gunnar Thors - mæting: 16:33
  • Auður D. Kristinsdóttir, skipulagsfulltrúi - mæting: 16:33

Almenn erindi

2.23091730 - Borgarlínan í Kópavogi. Umhverfismat framkvæmda lota 1

Lögð fram til kynningar umhverfismatsskýrsla framkvæmda fyrir Borgarlínu lotu 1 frá Ártúnshöfða að Hamraborg. Matsskýrslan er unnin af Mannvit/COWI fyrir Vegagerðina/Verkefnastofu Borgarlínu.

Sunna Björg Reynisdóttir, Álfhildur Stella L. Ákadóttir og Ólöf Kristjánsdóttir frá Verkefnastofu Borgarlínu gera grein fyrir erindinu.
Lagt fram og kynnt. Umhverfis- og samgöngunefnd hvetur til þess að framkvæmdum við Fossvogsbrú verði flýtt eins og hægt er þar sem nú þegar er brýn þörf og miðað við áætlanir allt of langt þar til reikna megi með almenningssamgöngum þar yfir.

Gestir

  • Auður D. Kristinsdóttir, skipulagsfulltrúi - mæting: 17:00
  • Sunna Björg Reynisdóttir - mæting: 17:00

Almenn erindi

3.2110841 - Borgarlínan, lota 2, leiðarval.

Lagt fram uppfært minnisblað frá Verkefnastofu Borgarlínu dags. 20. maí 2024 um legu 2. lotu Borgarlínu frá Hamraborg að Smáralind. Í minniblaðinu koma fram niðurstöður rýni Verkefnastofu Borgarlínu í samráði við Strætó bs og umhverfissvið Kópavogsbæjar á samanbuðri tveggja valkosta, legu Borgarlínu um Hafnarfjarðarveg annarsvegar og Digranesveg hinsvegar. Sunna Björg Reynisdóttir og Hallbjörn R. Hallbjörnsson frá verkefnastofu Borgarlínu gera grein fyrir erindinu.
Lagt fram og kynnt. Umhverfis og samgöngunefnd styður niðurstöðu Skipulagsráðs að unnið verði áfram með valkost 1 og að lega 2. lotu Borgarlínu verði eftir Hafnarfjarðarvegi og Fífuhvammsvegi að Smáralind og leitað verði leiða til að stoppistöðvar við Smáralind og Fífuna verði þannig fyrirkomið að farþegar geti gengið beint inn í Borgarlínu.

Gestir

  • Auður D. Kristinsdóttir, skipulagsfulltrúi - mæting: 17:29
  • Sunna Björg Reynisdóttir - mæting: 17:29
  • Hallbjörn R. Hallbjörnsson - mæting: 17:29
Guðjón Ingi Guðmundsson situr hjá undir þessum lið

Almenn erindi

4.24091191 - Bréf til innviðaráðherra - hávaði frá flugumferð

Bréf bæjarstjóra til innviðaráðherra varðandi hávaðamengunar vegna flugumferðar á Kársnesi. Lagt fram til kynningar.
Umhverfis og samgöngunefnd telur mikilvægt að hávaði sem fylgir núverandi þyrlutraffík, sem angrar íbúa á Kársnesi mjög, verði leystur með hlutaðeigandi hagaðilum.

Bókun:
Formaður umhverfis og samgöngunefndar áréttar að þetta verði gert, án þess að það komi niður á því mikilvæga hlutverki sem Reykjavíkurflugvöllur gegnir sem miðstöð innanlands, sjúkra- og kennsluflugs og sem varaflugvöllur fyrir landið.
Bergur Þorri Benjamínsson

Bókun:
Framtíðarstaðsetning innanlandsflugvallar er ekki á dagskrá þessa fundar og er það einkar sérstakt að svo mikilvæg umræða um hávaðamengun sé eyðilögð með þessum hætti.
Sigurlaug Kristín Sævarsdóttir undir þetta tekur Jane V. Appleton

Bókun:
Undirritaður vísar til fyrri máls 2308005 þar sem undirritaður vakti svipaðar áhyggjur og fagnar óvæntum liðsauka frá bæjarsjóra sem birtist í þessu bréfi. Það er þó umhugsunarefni hvað hefur breyst frá 170. fundi nefndarinnar þar sem mál 2308005 var til umfjöllunar.
Indriði I. Stefánsson undir þetta tekur Jane V. Appleton

Almenn erindi

5.24081506 - Fyrirspurn Andrésar Péturssonar varðandi skipulagt svæði fyrir ferðavagna.

Fyrirspurn varaáheyrnarfulltrúa Andrésar Péturssonar varðandi að skipulagt verði svæði fyrir ferðavagni á landi Kópavogsbæjar.
Vísað til umsagnar umhverfissviðs

Almenn erindi

6.2409161 - Fyrirspurn formanns Bergs Þorra Benjamínssonar um umferðaröryggi á Marbakkabraut

Fyrirspurn formanns Bergs Þorra Benjamínssonar vegna ábendingar íbúa varðandi umferðaröryggi við Marbakkabraut.
Vísað til umsagnar umhverfissviðs

Almenn erindi

7.24091019 - Fyrirspurn Bergs Þorra Benjamínssonar vegna opins bréfs vegna merkinga um hjólaumferð

Fyrirspurn Bergs Þorra Benjamínssonar formanns vegna opins bréfs um betri merkingar fyrir bílstjóra um hjólaumferð frá Erlendi S. Þorsteinssyni til Kópavogsbæjar.
Frestað

Fundi slitið - kl. 18:55.