Skipulagsráð

172. fundur 21. október 2024 kl. 15:30 - 17:30 í bæjarstjórnarsal, Hábraut 2
Fundinn sátu:
  • Hjördís Ýr Johnson formaður
  • Kristinn D Gissurarson varaformaður
  • Gunnar Sær Ragnarsson aðalmaður
  • Sveinbjörn Sveinbjörnsson aðalmaður
  • Hákon Gunnarsson aðalmaður
  • Theódóra Sigurlaug Þorsteinsdóttir aðalmaður
  • Helga Jónsdóttir aðalmaður
  • Sigurbjörg Erla Egilsdóttir áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Auður Dagný Kristinsdóttir skipulagsfulltrúi
  • Ásthildur Helgadóttir sviðsstjóri umhverfissviðs
  • Andrea Kristinsdóttir
  • Kristjana H Kristjánsdóttir verkefnastjóri
  • Elín Mjöll Lárusdóttir arkitekt
  • Brynja Kemp Guðnadóttir arkitekt
  • Karlotta Helgadóttir fulltrúi skipulagsdeildar
  • Freyr Snorrason
  • Díana Berglind Valbergsdóttir verkefnastjóri
  • Guðrún Edda Finnbogadóttir skrifstofustjóri umhverfissviðs
Fundargerð ritaði: Karlotta Helgadóttir fulltrúi skipulagsdeildar
Dagskrá

Afgreiðsla bæjarráðs og bæjarstjórnar

1.2410002F - Bæjarráð - 3190. fundur frá 10.10.2024

2409014F - Skipulagsráð - 171. fundur frá 07.10.2024.



Bókun undir mál nr. 12 í fundargerð skipulagsráðs:

Meðal framlagðra gagna á fundinum eru ábendingar lóðarhafa Melgerðis 11, dags. 18. september 2024, um hugsanlegar óleyfisframkvæmdir og breytta nýtingu húsa við Melgerði. Með vísan í eftirlitshlutverk bæjarráðs með stjórnsýslunni er óskað umsagnar sviðsstjóra umhverfissviðs um ábendingarnar og hugsanleg viðbrögð Kópavogsbæjar við þeim. Þá er jafnframt óskað umsagnar um stöðuskýrslu byggingarfulltrúa eftir skoðun hans á Melgerði 11, sem fram fór 1. október 2024. Þar er gerð grein fyrir breytingum jafnt utanhúss og á innra skipulagi án þess að teikningum hafi verið breytt áratugum saman. Bent er á úrskurð úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál frá 25. september þar sem hlutverk byggingarfulltrúa og heimild til að beita þvingunarráðurræðum til að fylgja því eftir að mannvirki og notkun þeirra sé í samræmi við útgefin leyfi er staðfest sem hér segir:



„Hlutverk byggingarfulltrúa hvers sveitarfélags er að hafa eftirlit með því að mannvirki og notkun þeirra sé í samræmi við útgefin leyfi og beita eftir atvikum þvingunarúrræðum, sbr. 55. og 56. gr. laga nr. 160/2010. Er nánar kveðið á um það í 2. mgr. 55. gr. laganna að sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt. Þá er fjallað um aðgerðir til að knýja fram úrbætur í 56. gr. laganna. Er þar m.a. tekið fram í 1. mgr. ákvæðisins að sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant að mati byggingarfulltrúa eða frágangur ekki samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum eða byggingarlýsingu skuli gera eiganda eða umráðamanni eignarinnar aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt er.“



Helga Jónsdóttir

Bergljót Kristinsdóttir

Sigurbjörg Erla Egilsdóttir

Theodóra S. Þorsteinsdóttir



24041399 - Borgarlínan í Kópavogi. Lota 1. Breytt deiliskipulag Kársneshafnar. Bakkabraut norðan Vesturvarar.

Bæjarráð vísar afgreiðslu málsins til bæjarstjórnar.



24082673 - Sjóvarnir við smábátabryggju. Umsókn um framkvæmdaleyfi.

Bæjarráð vísar afgreiðslu málsins til bæjarstjórnar.



24091148 - Breiðahvarf 2. Breytt deiliskipulag.

Bæjarráð vísar afgreiðslu málsins til bæjarstjórnar.



24061598 - Huldubraut 25. Kynning á byggingarleyfisumsókn.

Bæjarráð vísar afgreiðslu málsins til bæjarstjórnar.



24071731 - Vallargerði 6. Kynning á byggingarleyfisumsókn.

Bæjarráð vísar afgreiðslu málsins til bæjarstjórnar.

Fundargerðir umhverfis- og samgöngunefndar

2.2410001F - Umhverfis- og samgöngunefnd - 177. fundur frá 15.10.2024

24041399 - Borgarlínan í Kópavogi. Lota 1. Breytt deiliskipulag Kársneshafnar. Bakkabraut norðan Vesturvarar.

Lagt fram og kynnt.



24081506 - Fyrirspurn Andrésar Péturssonar varðandi skipulagt svæði fyrir ferðavagna.

Bókun:

Það er að ósekju skárra að hafa ferðavagna á afmörkuðum svæðum en dreift um bæinn og jafnvel upp við gangstéttarkanta þar sem þeir skerða útsýni vegfarenda. Það eykur á öryggi og minnkar óreiðu og slæma umgengni í kringum ferðavagna að Kópavogsbær bjóði upp á svæði þar sem eigendur ferðavagna geta geymt vagnana yfir sumartímann.

Sigurlaug Kristín Sævarsdóttir

Leó Snær Pétursson



Bókun:

Meirihluti Umhverfis og samgöngunefnd Kópavogs telur það fremur hlutverk einkaaðila að sjá um og reka geymslusvæði fyrir ferðavagna. Meirihluti tekur undir að setja þurfi skýrari ramma utan um geymslu ferðavagna og stærri tækja.

Bergur Þorri Benjamínsson

Guðjón Ingi Guðmundsson

Svava Halldóra Friðgeirsdóttir



2409161 - Fyrirspurn formanns Bergs Þorra Benjamínssonar um umferðaröryggi á Marbakkabraut

Umhverfis og samgöngunefnd þakkar fyrirspurnina, en fyrir liggur að gera þarf breytingar seinna meir á gatnamótum Kársnesbrautar og Sæbólsbrautar. Þegar að þeim framkvæmdum kemur verða frekari breytingar á svæðinu skoðaðar.



24091019 - Fyrirspurn Bergs Þorra Benjamínssonar vegna opins bréfs vegna merkinga um hjólaumferð

Umhverfis- og samgöngunefnd þakkar fyrir ábendinguna og beinir því til umhverfissviðs að halda áfram að uppsetningu merkja samkvæmt þeim ramma sem því er sett.



23051118 - Forgangs- og vaktlistaefnamælingar í Kópavogslæk

Lagt fram og kynnt. Afgreiðslu frestað.

Almenn erindi

3.24101812 - Fyrirspurn bæjarfulltrúa um fjölgun íbúða í Kópavogi á árunum 2020 til 2024.

Samþykkt að taka inn á dagskrá fundarins með afbrigðum fyrirspurn bæjarfulltrúa dags. 17. október 2024.
Lagt fram. Vísað til umsagnar umhverfissviðs.

Bókun:
„Í þessari fyrirspurn er aðeins óskað eftir upplýsingum um framtíðaruppbyggingu á ákveðnum svæðum í Kópavogi, og því myndi svar við henni ekki endurspegla að fullu þá vinnu sem á sér stað í sveitarfélaginu. Eðlilegt væri að horfa til fleiri svæða á borð við Vatnsendahlíð, Gunnarshólma og yfir Reykjanesbraut.
Því óska undirrituð eftir því að horft verði á Kópavog í heild hvað varðar íbúðir sem gert er ráð fyrir að komi á markað.“
Hjördís Ýr Johnson , Kristinn Dagur Gissurarsson, Gunnar Sær Ragnarsson og Sveinbjörn Sveinbjörnsson.

Almenn erindi

4.2201629 - Auðbrekka þróunarsvæði. Svæði 4, Auðbrekka 15 til 27, oddatölur. Deiliskipulag.

Kynning á drögum á vinnslustigi fyrir deiliskipulagsvinnu á þróunarsvæði Auðbrekku, nánar til tekið á svæði 4 (Auðbrekku 15-27). Áætlanir skipulagsdeildar um byggðarþróun á umræddum svæðum eru í samræmi við Aðalskipulag Kópavogs 2019-2040 og markmið í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2015-2040. Í ofangreindum skipulagsgögnum eru settar fram hugmyndir um að breyta og bæta ásýnd hverfisins með uppbyggingu verslunar- þjónustu og íbúðarhúsnæðis sem og opinna svæða og gönguleiða.

Skýringarhefti dags. 26. apríl 2014 og uppfært 18. október 2024.
Skipulagsráð samþykkir að hafin verði vinna við gerð deiliskipulags fyrir svæði 4 á þróunarsvæðinu í Auðbrekku (ÞR-2) og að ofangreind drög verði kynnt fyrir lóðarhöfum á svæðinu.

Almenn erindi

5.23111612 - Göngu- og hjólastígar um Kópavogsháls. Deiliskipulag.

Lögð fram að nýju að lokinni kynningu tillaga umhverfissviðs að deiliskipulagi göngu- og hjólastíga um Kópavogsháls. Megintilgangur deiliskipulagstillögunnar er að mæla fyrir um legu og fyrirkomulag stofnstígs hjólreiða um Kópavogsháls. Kynningartíma lauk 23. september 2024.

Þá lagðar fram athugasemdir sem bárust á kynningartíma.
Afgreiðslu frestað. Vísað til umsagnar skipulagsdeildar.

Almenn erindi

6.24053112 - Kópavogstún. Breytt deiliskipulagsmörk.

Lögð fram að nýju að lokinni kynningu tillaga umhverfissviðs að breyttu deiliskipulagi Kópavogstúns dags. 15. júlí 2024. Í breytingunni felst að mörk deiliskipulagssvæðisins færast til suðurs og vestur og munu liggja að deiliskipulagssvæði nýs deiliskipulags göngu- og hjólastíga um Kópavogsháls. Ekki eru gerðar aðrar breytingar á deiliskipulaginu. Kynningartíma lauk 23. september 2024.

Þá lagðar fram athugasemdir sem bárust á kynningartíma.
Afgreiðslu frestað. Vísað til umsagnar skipulagsdeildar.

Almenn erindi

7.23111613 - Göngu- og hjólastígar um Ásbraut, Hábraut og Hamraborg. Deiliskipulag. Skipulagslýsing.

Lögð fram að nýju að lokinni kynningu skipulagslýsing fyrir nýtt deiliskipulag Ásbrautar dags. 12. júlí 2024. Markmið með deiliskipulagsvinnunni að endurhanna göturými Ásbrautar til að bæta stígakerfi og tryggja með samræmdum hætti örugga og greiða umferð gangandi og hjólandi vegfarenda í samræmi við aðalskipulag Kópavogsbæjar. Kynningartíma lauk 23. september 2024.

Þá lagðar fram athugasemdir sem bárust á kynningartíma.
Skipulagsráð samþykkir að á grundvelli framlagðrar skipulagslýsingar fyrir nýtt deiliskipulag Ásbrautar og umsagna, athugasemda og ábendinga er fram komu á kynningartíma verði hafin vinna við gerð tillögu að deiliskipulagi fyrir umrætt svæði.

Almenn erindi

8.24041735 - Silfursmári 1-7. Fyrirspurn.

Lagt fram erindi Klasa ehf. dags. 20. september 2024 f.h. lóðarhafa lóðarinnar nr. 1-7 við Silfursmára þar sem óskað er eftir heimild skipulagsráðs til að hefja vinnu við breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar. Í breytingunni felst breytt fyrirkomulag byggingarreita og opinna svæða á lóðinni, aukning byggingarmagns, hækkun byggingarreita og fjölgun íbúða. Erindinu fylgir greinargerð ásamt skýringarmyndum dags. 20. september 2024. Á fundi skipulagsráðs þann 7. október 2024 var erindinu vísað til umsagnar skipulagsdeildar.

Þá lögð fram umsögn skipulagsdeildar dags. 18. október 2024.
Skipulagsráð samþykkir með tilvísun í 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að veita lóðarhafa heimild til að hefja vinnu við gerð tillögu að breyttu deiliskipulagi á sinn kostnað, í samræmi við umsögn skipulagsdeildar dags. 18. október 2024.

Almenn erindi

9.2410568 - Víðihvammur 8. Fyrirspurn.

Lögð fram fyrirspurn Gísla G. Gunnarssonar byggingarfræðings dags. 7. október 2024 f.h. lóðarhafa lóðarinnar nr. 8 við Víðihvamm um heimild fyrir viðbyggingu. Fyrirhuguð viðbygging er um 16,6 m² fyrir nýtt anddyri. Byggt verður yfir núverandi úttröppur og þær nýttar sem stigi fyrir kjallara sem kemur í stað núverandi stiga innandyra. Þakform breytist og þak hækkar um 0,62 m.

Uppdrættir í mkv. 1:500 og 1:50 dags. september og 17. október 2024.
Skipulagsráð lítur jákvætt á að framlögð fyrirspurn verði unnin áfram.

Almenn erindi

10.2410520 - Brekkuhvarf 1A. Breytt deiliskipulag.

Lögð fram umsókn lóðarhafa lóðarinnar nr. 1A við Brekkuhvarf dags. 5. október 2024 um breytingu á deiliskipulagi. Í breytingunni felst niðurtekt kansteins og fjölgun bílastæða úr einu í þrjú.
Afgreiðslu frestað. Vísað til umsagnar skipulagsdeildar.

Almenn erindi

11.2406338 - Melgerði 11. Kynning á byggingarleyfisumsókn.

Lagt fram að nýju erindi byggingarfulltrúa dags. 31. maí 2024 þar sem byggingarleyfisumsókn Hauks Ásgeirssonar byggingarverkfræðings f.h. lóðarhafa lóðarinnar nr. 11 við Melgerði er vísað til skipulagsráðs. Sótt er um leyfi fyrir viðbyggingu með einni íbúð á tveimur hæðum við vesturhlið íbúðarhússins samtals 126,5 m² að flatarmáli. Bílastæðum á lóðinni fjölgar úr einu í tvö. Fyrir er á lóðinni steinsteypt 160 m² einbýlishús á tveimur hæðum byggt 1954 auk 40,2 m² bílgeymslu, byggðri 1972. Byggingarmagn á lóðinni hækkar úr 200,2 m² í 326,7 m² við breytinguna og nýtingarhlutfall hækkar úr 0,26 í 0,42. Fjöldi íbúða eykst úr einni í tvær. Stöðuskýrsla eftir skoðun byggingarfulltrúa 1. október 2024 er lögð fram. Þá er lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 28/2024 þar sem ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 8. mars 2024 um að hafna veitingu byggingarleyfis er felld úr gildi. Þá er jafnframt lagt fram minnisblað lögfræðideildar dags. 21. maí 2024 og minnisblað skipulagsdeildar dags. 5 júlí 2024. Á fundi skipulagsráðs þann 7. október 2024 var afgreiðslu málsins frestað.

Þá lögð fram greinargerð skipulagsdeildar dags. 17. október 2024.
Fundarhlé kl. 17:20, fundi fram haldið kl. 17:53.

Bókun:
„Í 37.gr. skipulagslaga kemur fram sú meginregla að gera skuli deiliskipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Heimild skipulagsnefndar til að veita undanþágu frá meginreglunni um deiliskipulagsskyldu í 44.gr. laganna er bundin þröngum skilyrðum. Fyrir nefndina hafa komið fram upplýsingar um margháttaðar óleyfisframkvæmdir víða við Melgerði og óleyfisframkvæmdir í fasteigninni, sem sótt er um breytingu á. Þá liggur fyrir þessum fundi greinargerð skipulagsdeildar um fjölda afgreiðslna beiðna um breytingar og aukið byggingarmagn víðs vegar í Kópavogi o.fl. Allt þetta varpar ljósi á hversu mikilvægt er að byggð þróist í samræmi við heildstæða og samþætta stefnumörkun í formi deiliskipulags.
Í úrskurði ÚUA nr. 17/2003 er niðurstaðan eftirfarandi og vísað í álit umboðsmanns Alþingis: „Þegar til afgreiðslu kemur hvort veita eigi byggingarleyfi í þegar byggðu hverfi, sem ekki hefur verið deiliskipulagt, og búast má við frekari umsóknum um framkvæmdir á reitnum, er almennt rétt að gera fyrst deiliskipulag fyrir reitinn áður en byggingarleyfi er veitt. Sú hætta fylgir, þegar veitt er eitt byggingarleyfi í einu, án þess að fyrir liggi deiliskipulag, að tvö eða fleiri byggingarleyfi á reit hafi í för með sér verulegar breytingar á byggðamynstri reitsins enda þótt hvert byggingarleyfi eitt og sér hafi ekki slík áhrif. Þegar svo stendur á þróast byggð ekki í samræmi við heildstæða og samþætta stefnumörkun í formi deiliskipulags, sem grundvalla ber á fjölmörgum lögmæltum sjónarmiðum, auk þess sem íbúar hlutaðeigandi hverfis eru sviptir lögboðnum rétti sínum til þess að fá færi á því að koma að sjónarmiðum sínum og hafa áhrif við gerð deiliskipulags. Slík byggðaþróun verður að teljast í andstöðu við markmið skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.“
Undirrituð telja í ljósi ofanritaðs ábyrgðarlaust, og stangast á við hagsmuni íbúa almennt, að fallast á þá beiðni sem hér liggur fyrir.“
Helga Jónsdóttir, Theódóra S. Þorsteinsdóttir, Hákon Gunnarsson og Sigurbjörg Erla Egilsdóttir.

Bókun:
„Með þau gögn í huga sem hafa komið fram í þessu máli telur meirihluti skipulagsráðs rétt að samþykkja framkomna beiðni. Bókun minnihlutans breytir þar engu um.“
Hjördís Ýr Johnson, Kristinn Dagur Gissurarson, Sveinbjörn Sveinbjörnsson og Gunnar Sær Ragnarsson.

Skipulagsráð samþykkir erindið með tilvísun í umsögn skipulagsdeildar dags. 25. janúar 2024 og úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 28/2024 með fjórum atkvæðum Hjördísar Ýrar Johnson, Kristins Dags Gissurarsonar, Sveinbjörns Sveinbjörnssonar og Gunnars Sæs Ragnarssonar gegn atkvæðum Theódóru S. Þorsteinsdóttur, Helgu Jónsdóttir og Hákonar Gunnarssonar. Vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar.

Almenn erindi

12.24051460 - Álfhólsvegur 68. Kynning á byggingarleyfisumsókn.

Lagt fram að nýju erindi byggingarfulltrúa dags. 3. maí 2024 þar sem umsókn Valgeirs Berg Steindórssonar f.h. lóðarhafa lóðarinnar nr. 68 við Álfhólsveg um byggingarleyfi er vísað til skipulagsráðs. Sótt er um leyfi til að byggja 20,4 m² útigeymslu á suðurhluta lóðar. Nýtingarhlutfall lóðarinnar eykst úr 0,26 í 0,29 með tilkomu útigeymslunnar.

Á fundi skipulagsráðs þann 7. október 2024 var erindið lagt fram að lokinni kynningu ásamt athugasemdum og ábendingum sem bárust á kynningartíma. Afgreiðslu var frestað og erindinu vísað til umsagnar skipulagsdeildar.

Þá lögð fram umsögn skipulagsdeildar dags. 18. október 2024.
Skipulagsráð samþykkir erindið með fimm atkvæðum Hjördísar Ýrar Johnson, Kristins Dags Gissurarsonar, Sveinsbjörns Sveinbjörnssonar, Gunnars Sæs Ragnarssonar og Hákonar Gunnarssonar. Vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar.
Theódóra S. Þorsteinsdóttir og Helga Jónsdóttir sátu hjá við afgreiðslu málsins.

Almenn erindi

13.24012320 - Álfhólsvegur 62. Kynning á byggingarleyfisumsókn.

Lagt fram að nýju að lokinni kynningu erindi byggingarfulltrúa dags. 26. janúar 2024 þar sem byggingarleyfisumsókn lóðarhafa lóðarinnar nr. 62 við Álfhólsveg er vísað til skipulagsráðs. Í breyttum gögnum er óskað eftir heimild til að reisa 158,2 m² tveggja hæða nýbyggingu með tengingu við vesturgafl núverandi íbúðarhúss á lóðinni og fjölgun íbúða úr einni í tvær. Nýju bílastæði er komið fyrir við hlið núverandi bílastæða á lóðinni og þeim fjölgar úr tveimur í þrjú stæði. Fallið er frá áformum um að fjölga innkeyrslum að lóð. Lóðin er 998 m² að stærð og byggingarmagn eykst úr 183 m² í 341,2 m². Nýtingarhlutfall eftir breytingu verður 0,34 í stað 0,18. Kynningartíma lauk 11. október 2024, engar athugasemdir bárust.

Þá lögð fram umsögn skipulagsdeildar dags. 18. október 2024.
Skipulagsráð samþykkir erindið með fimm atkvæðum Hjördísar Ýrar Johnson, Kristins Dags Gissurarsonar, Sveinsbjörns Sveinbjörnssonar, Gunnars Sæs Ragnarssonar og Hákonar Gunnarssonar. Vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar.
Theódóra S. Þorsteinsdóttir og Helga Jónsdóttir sátu hjá við afgreiðslu málsins.

Almenn erindi

14.2406336 - Skólagerði 47. Kynning á byggingarleyfisumsókn.

Lagt fram að nýju að lokinni kynningu erindi byggingarfulltrúa dags. 31. maí 2024 þar sem umsókn Árna Þórs Helgasonar f.h. lóðarhafa nr. 47 við Skólagerði er vísað til skipulagsráðs. Í breytingunni felst stækkun á íbúðarhúsi um 16,1 m² og reistur nýr bílskúr 52.8 m² að stærð. Nýtingarhlutfall hækkar úr 0,49 í 0,65. Á fundi skipulagsráðs þann 19. ágúst 2024 var samþykkt að grenndarkynna byggingarleyfisumsóknina. Kynningartíma lauk 14. október 2024, athugasemdir bárust.

Þá lögð fram umsögn skipulagsdeildar dags. 15. október 2024.
Skipulagsráð samþykkir erindið með fjórum atkvæðum Hjördísar Ýrar Johnson, Kristins Dags Gissurarsonar, Sveinsbjörns Sveinbjörnssonar, og Gunnars Sæs Ragnarssonar. Vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar.
Theódóra S. Þorsteinsdóttir, Helga Jónsdóttir og Hákon Gunnarsson sátu hjá við afgreiðslu málsins.

Almenn erindi

15.24101138 - Áætlun um fundi skipulagsráðs 2025

Lögð fram áætlun um fundi skipulagsráðs árið 2025 dags. 17. október 2024.
Skipulagsráð samþykkir framlagða áætlun.

Fundi slitið - kl. 17:30.