Lögð fram að nýju tillaga að rammahluta Aðalskipulags Kópavogs 2019-2040, Borgarlínan í Kópavogi, fyrir fyrstu lotu Borgarlínu frá Fossvogsbrú að Hamraborg dags. í ágúst 2024. Rammahlutinn er unninn af VSÓ ráðgjöf fyrir Kópavogsbæ. Viðfangsefni tillögunnar er nánari útfærsla fyrir Borgarlínuna í Kópavogi. Þar er lögð fram tillaga að legu, staðsetningu stöðva, áherslum á forgang og skipulag göturýmis. Jafnframt eru kynnt þau viðmið sem líta ber til við útfærslu Borgarlínunnar, hvort sem er í deiliskipulagi göturýmis eða hönnun innviða Borgarlínunnar. Rammahlutinn um 1. lotu Borgarlínunnar er ítarlegri stefna tillögu að Aðalskipulagi Kópavogs 2019-2040 til að tryggja framfylgd meginmarkmiða skipulagsins um Borgarlínuna. Viðfangsefni tillögunnar eru liður í því að stuðla að framfylgd samgöngusáttmála ríkis- og sveitarfélaganna og tryggja framfylgd samgönguáætlunar 2020-2034.
Þá er einnig lögð fram samantekt þeirra umsagna og athugasemda sem bárust er frumdrög Borgarlínu og vinnslutillaga að rammahluta aðalskipulags voru forkynnt árið 2021, dags. í nóvember 2023.
Erindið var lagt fram og kynnt á fundi skipulagsráðs þann 2. september 2024, Stefán Gunnar Thors, sviðsstjóri Umhverfis og skipulags hjá VSÓ ráðgjöf gerir grein fyrir erindinu. Afgreiðslu málsins var frestað til næsta fundar.
Stefán Gunnar Thors gerði grein fyrir erindinu.
Gestir
- Stefán Gunnar Thors - mæting: 15:30
Skipulagsráð samþykkir með fimm atkvæðum Hjördísar Ýrar Johnson, Helga Ólafssonar, Gunnars Sæs Ragnarssonar, Theódóru S. Þorsteinsdóttur, Helgu Jónsdóttur gegn atkvæði Kristins Dags Gissurarsonar með tilvísun í 1. mgr. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að framlögð tillaga að rammahluta aðalskipulags verði auglýst. Vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar.
Bókun:
„Undirritaður, Kristinn Dagur Gissurarson, leggst alfarið gegn framlagningu skjalsins Rammahluti ASK KÓP Borgarlínan í Skipulagsráði, 16.09.2024. Leggja ber áherslu á að Borgarlínan keyri í almennri umferð um Borgarholtsbraut en ekki í sérrými og einstefna verði hvergi. Huga þarf að því að skerða lóðir íbúa sem minnst. Ljóst er þrátt fyrir að það komi ekki fram í Rammahlutanum að stefnan til frambúðar er klárlega sú að hin lágreista byggð við Borgarholtsbrautina víki og þess í stað verði reist „massa“ fjölbýlishús við Borgarholtsbrautina. Þessi framtíðarsýn hugnast ekki undirrituðum.“
Kristinn Dagur Gissurarson.