Lögð fram á ný tillaga verkfræðistofunnar Eflu f.h. Kópavogsbæjar og
Reykjavíkurborgar dags. 13. desember 2021 að deiliskipulagi 3. áfanga Arnarnesvegar. Deiliskipulagstillagan nær til þess hluta Arnarnesvegar sem liggur frá gatnamótum Rjúpnavegar að fyrirhuguðum gatnamótum Breiðholtsbrautar og Arnarnesvegar og er um 1,9 km að lengd. Við gatnamót Rjúpnavegar og Arnarnesvegar er gert ráð fyrir nýju hringtorgi sem og við gatnamót Vatnsendavegar og Arnarnesvegar. Þá er gert ráð fyrir fjögurra akreina brú yfir Breiðholtsbraut og tengingu við Breiðholtsbraut með ljósastýrðum gatnamótum. Hluti veghelgunarsvæðis Arnarnesvegar er innan sveitarfélagsmarka Reykjavíkur, en stærsti hluti hans liggur innan sveitarfélagsmarka Kópavogs. Samhliða er gert ráð fyrir stofnstíg, aðskilinn hjóla- og göngustíg, frá Rjúpnavegi í Kópavogi og að Elliðaárdal ásamt tengistígum sem og meðfram Breiðholtsbrautinni og undir fyrirhugaða brú yfir Breiðholtsbraut. Jafnframt er gert ráð fyrir göngubrú / vistloki yfir Arnarnesveginn.
Gert er ráð fyrir undirgöngum eða brú yfir Arnarnesveg við
gatnamót Rjúpnavegar og undirgöngum undir Vatnsendaveg nálægt fyrirhuguðu hringtorgi. Mörk skipulagssvæðis Arnarnesvegar skarast við skipulagsmörk í gildandi deiliskipulagi Hörðuvalla frá 2003, Vatnsendahvarfs - athafnasvæðis frá 2001 og Vatnsendahvarfs - athafnasvæðis, svæðis 3 frá 2007 og verða gerðar breytingar á umræddum deiliskipulögum samhliða deiliskipulagi Arnarnesvegar. Almennt er gert ráð fyrir að skipulagsmörk liggi nálægt veghelgunarlínu Arnarnesvegar nema við Desjakór og Lymskulág þar sem mörkin eru nær sveitarfélagamörkum. Uppdrættir í mkv. 1:2000 og 1:1000 dags. 13. desember 2021 ásamt greinargerð dags. 13. desember 2021.
Skipulagsráð samþykkti 20. desember 2021 með tilvísun í 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að auglýsa framlagða tillögu að deiliskipulagi. Á fundi bæjarstjórnar 11. janúar 2022 var afgreiðsla skipulagsráðs staðfest.
Kynningartíma lauk 04. mars 2022.
Á fundi skipulagsráðs 14. mars 2022 voru lagðar fram framkomnar athugasemdir, ábendingar og umsagnir. Afgreiðslu frestað, vísað til umsagnar skipulagsdeildar.
Þá lögð fram umsögn dags. 13. maí 2022, greinargerð dags. 13. maí 2022 og breyttur uppdráttur dags. 13. maí 2022.
Ómar Ingþórsson landslagsarkitekt gerir grein fyrir erindinu.
Gestir
- Ómar Ingþórsson - mæting: 15:34
Fundur hófst á ný kl. 16:20.
Fundarhlé kl. 16:30
Fundur hófst á ný kl. 16:35
Bókun Einars Arnar Þorvarðarsonar:
"Með vísan til 1. og 2. mgr. 133. gr. laga um kosningar fer undirritaður fram á að erindum 3 og 4 verði frestað á þessum fundi. Umboð kjörinna fulltrúa næstu tvær vikur er takmarkað skv. lögunum og engin nauðsyn sem nú steðjar að sem krefst þess að fráfarandi meirihluti afgreiði svo umdeild mál á fyrsta virka degi eftir kosningar. Lögin gera beinlínis ráð fyrir frestun slíkra mála og að nýkjörinn sveitarstjórn taki mál fyrir á fyrsta fundi sínum. Þess utan lofuðu allir flokkar sem náðu kjöri í bæjarstjórn Kópavogs auknu samráði og því er það beinlínis krafa að þeir sýni það í verki á fyrsta virka degi eftir kosningar."
Sigurbjörg Erla Egilsdóttir tekur undir bókun Einars.
Afgreiðslu frestað.