Lagt fram á ný erindi Landsnets hf. dags. 8. febrúar 2022, þar sem kynntur er nýr valkostur í útfærslu Lyklafellslínu 1 í landi Kópavogs. Um er að ræða niðurrif mastra Hamraneslína 1 og 2 á milli tengivirkisins í Hamranesi að Urriðakotsdal og lagningu 220 KV jarðstrengja í stað loftlínunnar á þeim kafla sem er um 5 km. Jarðstrengurinn mun liggja frá tengivirki í Hamranesi og tengjast við möstur Hamraneslína 1 og 2 (HN 1&2) í Urriðakotsdal. Þessar framkvæmdir fela ekki í sér niðurrif Hamraneslína 1 og 2 alla leið, líkt og ef um byggingu nýrrar línu (Lyklafellslínu 1) væri að ræða. Þessi nýja útfærsla hefur hlotið vinnuheitið "Núllkostur 2" og verður metinn sem einn valkostur í umhverfismatinu sem nú er í vinnslu.
Skv. erindinu uppfyllir "Núllkostur 2" ekki meginmarkmið verkefnisins, en engu að síður telur Landsnet, miðað við stöðu og gögn málsins nú, að valkosturinn hafi margvíslegan ávinning og með fyrirvara um endanlega niðurstöðu umhverfismatsins, geti hann mögulega orðið aðalvalkostur Landsnets þegar umhverfismatsskýrslan verður lögð fram. Vinnu við skýrsluna lýkur í vor og er óskað eftir afstöðu Kópavogsbæjar áður en þeirri vinnu líkur.
Á fundi skipulagsráðs 14. febrúar sl. var afgreiðslu erindisins frestað, vísað til umsagnar umhverfissviðs. Þá lögð fram umsögn umhverfissviðs dags. 29. mars 2022.