Lögð fram deiliskipulagstillaga Pálmars Kristmundssonar, arkitekts dags. í október 2020 að deiliskipulagi fyrir Fannborgarreit og Traðarreit-vestur á miðbæjarsvæði Hamraborgar. Breytingin nær til svæðis sem afmarkast af Vallartröð til austurs, Digranesvegi til suðurs, Fannborg 8 til vestur og Hamraborg 10-38 til norðurs. (Reitir B1-1 og B1-3 og B4 í rammahluta Aðalskipulags Kópavogs 2012-2024). Stærð skipulagssvæðisins er um 4.3 ha að flatarmáli. 1) Á Fannborgarreit (á reit B1-1) standa nú þrjár byggingar fyrir atvinnuhúsnæði á 2, 3 og 4 hæðum (gömlu bæjarskrifstofurnar í Fannborg 2, 4 og 6) alls um 5300 m2 sem byggðar voru á árunum 1973-1979. Í tillögunni er gert ráð fyrir að þessar byggingar verði rifnar og nýtt húsnæði á 1-7 hæðum, með stöku byggingum sem eru 8 og 12 hæðir, rísi á svæðinu fyrir allt að 270 íbúðir ásamt verslun og þjónustu. Á jarðhæðum sem snúa að göngugötu (mannlífsás) sem mun verða milli fyrirhugaðra nýbygginga og núverandi íbúðarhúsa við Hamraborg 30-38 er gert ráð fyrir verslun og þjónustu. Áætlað heildar byggingarmagn verður um 18.000 m2 að samanlögðum gólffleti þar af 2000 m2 fyrir verslun og þjónustu. Hámarksnýtingarhlutfall er áætlað 2.04 án bílakjallara og 3.56 með bílastæðakjallara. Gert er ráð fyrir 1 bílastæði fyrir hverja íbúð og 1 bílastæði fyrir hverja 100 m2 í verslunar- og þjónustuhúsnæðis og að lágmarksfjöldi reiðhjólastæða er 2 reiðhjólastæði á íbúð og 1 reiðhjólastæði fyrir hverja 100 m2 verslunar- og þjónustuhúsnæðis. Heimild er fyrir allt að 200 bílastæðum fyrir verslun- og þjónustu og aðliggjandi byggð á skipulagssvæðinu á reitnum í bílakjallara. Gert er ráð fyrir bílastæðum neðanjarðar. Lóðarmörk og aðkoma breytast. 2) Á Traðarreit-vestur standa nú 8 byggingar á einni til þremur hæðum með samtals 13 íbúðum, þar af 2 atvinnuhúsnæði, sem byggð voru á árunum 1952-1958 alls um 3000 m2. Í tillögunni er gert ráð fyrir að þessar byggingar víki fyrir nýrri byggð á 1-7 hæðum fyrir allt að 280 íbúðir auk verslunar- og þjónustuhúsnæðis alls um 22.000 m2 að samanlögðum gólffleti þar af 1.000 m2 fyrir verslun og þjónustu. Hámarksnýtingarhlutfall er áætlað 2.42 án bílakjallara og 3.90 með bílastæða kjallara. Gert er ráð fyrir 1.25 bílastæði fyrir hverja íbúð og 1 bílstæði fyrir hverja 75 m2 verslunar og þjónustuhúsnæðis. Heimild er fyrir allt að 200 bílastæðum fyrir verslun- og þjónustu og aðliggjandi byggð á skipulagssvæðinu á reitnum í bílakjallara. Lágmarksfjöldi reiðhjólastæða á reitnum er 2 reiðhjólastæði á íbúð og 1 reiðhjólastæði fyrir hverja 75 m2 verslunar- og þjónustuhúsnæðis. Lóðarmörk og aðkoma breytast. 3) Gert er ráð fyrir göngugötu (mannlífsás) allt frá Vallartröð að Hálsatorgi fyrir verslunar- og þjónustuhúsnæði.
Ofangreind tillaga var auglýst í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 frá 2. janúar 2021 til 2. mars 2021. Athugasemdir og ábendingar bárust á kynningartíma.
Á fundi skipulagsráðs 17. maí 2021 var framlögð tillaga að deiliskipulagi ásamt umsögnum í greinargerð dags. 22. apríl 2021 samþykkt með hjásetu Bergljótar Kristinsdóttir og vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Á fundi bæjarstjórnar 25. maí 2021 var afgreiðsla skipulagsráðs staðfest með níu atkvæðum.
Þá er lagt fram erindi Skipulagstofnunar dags. 26. ágúst 2021 þar sem fram kemur að stofnunin geri athugasemdir við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda. Jafnframt lagt fram erindi skipulagsfulltrúa dags. 17. september 2021 þar sem brugðist er við athugasemdum Skipulagsstofnunar og lagðar eru til lagfæringar á deiliskipulagsgögnum sem koma til móts við athugasemdir Skipulagsstofnunar.
Meðal leiðréttinga eru afmörkun skipulagssvæðisins sem er samræmd í skipulagsgögnum og skipulagssvæðinu lýst með ítarlegri hætti. Skipulagsákvæði sett fram með skýrari hætti fyrir alla reiti svæðisins B1-1, B1-3, B2 og B4. Skilmálatöflu (2) fyrir svæði B1-3 og B2 bætt við á skipulagsuppdrætti. Öryggi og aðgengi á yfirborði og í bílakjallara gerð frekari skil. Aðkoma að bílakjallara gerð skýrari. Bílastæðafjöldi í skilmálatöflu og greinargerð samræmd.
Tillagan lögð fram að nýju með áorðnum breytingum dags. 15. september 2021.
Gestir
- Pálmar Kristmundsson - mæting: 15:30
Einar Örn Þorvarðarson og Sigurbjörg Erla Egilsdóttir sátu hjá við afgreiðslu málsins. Vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar.
Bókun frá Bergljótu Kristinsdóttur „Undirrituð sér sér ekki fært að samþykkja þessa tillögu að breyttu deiliskipulagi fyrir Hamraborg, miðbæ þó aðeins sé um uppfærslu á framsetningu að ræða. Undirrituð hefur áður kallað eftir heilstæðri skipulagningu alls miðsvæðisins þ.m.t. reitsins vestan við téðan miðbæjarreit sem telja verður sem hluta miðbæjarsvæðis. Miklar breytingar eru fyrirhugaðar á þeim reit í framtíðinni sem munu hafa veruleg áhrif á allt svæðið, m.a. umferð, tengingar við mannlífsás, uppbyggingu almenningsrýma, samgöngumiðju og verslun svo eitthvað sé nefnt. Skammsýni og þjónkun við lóðarhafa ræður hér för sem er ekki góð blanda. Enn fremur er undirrituð afar ósátt við að ekki þótti ástæða til að ná sátt við næstu nágranna reitanna B1-1 og B4 og enn eru mál óútkljáð vegna aðkomu að eignum sem fyrir eru á svæðinu, bæði á verktíma og til framtíðar.“