Lagt fram erindi skipulags- og byggingarfulltrúa Ölfuss dags. 5. janúar 2018 þar sem kynnt er tillaga að breyttu deiliskipulagi fyrir athafnasvæði Hellisheiðavirkjunar. Breyting felst í því að stækka skipulagssvæði virkjunar á Hellisheiði til norðvesturs meðfram Búrfellslínu og Sogslínu. Svæðið sem stækkunin nær til er 131 ha og stækkar skipulagssvæðið úr 1.362 ha í 1.493 ha. Með stækkun skipulagssvæðisins er verið að fullnýta skilgreint iðnaðarsvæði Hellisheiði í gildandi aðalskipulagi. Orka náttúrunnar hefur hug á að reisa jarðhitagarð á Hellisheiði, á því svæði sem stækkun skipulagssvæðisins nær til, á flatlendinu meðfram Búrfellslína og Sogslínu. Jarðhitagarði ON er ætlað að vera umgjörð um fjölbreytta starfsemi sem stuðlar að sem bestri nýtingu afurða Hellisheiðarvirkjunar, jákvæðum umhverfisáhrifum og verðmætasköpun. Með breytingunni verður mögulegt að byggja upp jarðhitagarð á skipulagssvæðinu með því að skilgreina lóðir og byggingarreiti á svæðinu ásamt því að setja skilmála um fyrirhugaða uppbyggingu. Í breytingu á deiliskipulagi er m.a. gerð grein fyrir lóðarmörkum, byggingarreitum, byggingarskilmálum, umhverfisfrágangi, veitumálum, samgöngumálum og öðrum þeim ákvæðum sem ástæða er til að skilgreina í deiliskipulagi. Með breytingunni fylgja deiliskipulagsuppdrættir ásamt greinargerð og umhverfisskýrslu dags. 6. desember 2017 tillaga að matslýsingu dags. 13. nóvember 2017.