Lögð fram að nýju tillaga skipulags- og byggingardeildar Kópavogs að deiliskipulagi fyrir hluta þróunarsvæðis Auðbrekku, svæði 1, 2 og 3.
Nánar til tekið nær tillagan til Nýbýlavegar 2-12, Auðbrekku 1-13, Auðbrekku 29, Skeljabrekku 4 og Dalbrekku 2-10.
Tillagan er í samræmi við Aðalskipulag Kópavogs 2012-2024 og skipulagslýsingu dags. 4. maí 2015 samþykkta í bæjarstjórn 12. maí 2015 og tillögu ASK arkitekta frá desember 2014 um heildaryfirbragð þróunarsvæðisins.
Í tillögunni er gert ráð fyrir að heimila aukið byggingarmagn á ofangreindum svæðum með því markmiði að koma fyrir blandaðri byggð þar sem horft verður til fyrstu íbúða kaupenda og að koma til móts við óskir þeirra sem koma til með að búa og starfa á Auðbrekkusvæðinu um að nota "grænar lausnir" þegar kemur að bílaeign, ferðamáta og sorpflokkun.
Í tillögu að deiliskipulagi fyrir svæði 1 (Nýbýlavegur 2-12 og Auðbrekka 29) er gert ráð fyrir byggt verði við núverandi húsnæði að Nýbýlavegi 2, 4, 6, 8 og 12, 47 íbúðir auk verslunar og þjónusturými en í stað tvíbýlishúss að Auðbrekku 29 og atvinnuhúsnæðis að Nýbýlavegi 10 komi 42 íbúðir auk verslunar og þjónustu. Gert er ráð fyrir að heildarbyggingarmagn íbúða og atvinnuhúsnæðis (verslun og þjónustu) verði um 26.000 m2 þarf af um 16.700 í atvinnuhúsnæði auk niðurgrafinna bílageymslna sem áætlaðar eru um 5.700 m2 að stærð. Heildarbyggingarmagn er því áætlað um 31.600 m2. Gert er ráð fyrir bílakjallara undir fyrirhuguðum byggingum og miðað er við 1,3 stæði á íbúð og 1,0 stæði á hverja 50 m2 í atvinnuhúsnæði. Núverandi byggingarmagn á svæði 1 er um 12.000 m2 að stærð. Stofnuð verður ný sameiginleg lóð Nýbýlavegur 2-12 fyrir bílastæði og kjallara með kvöð um aðkomu og samnýtingu. Í tillögu að deiliskipulagi svæðisins er miðað við að meðalstærð íbúða sé um 100 m2 brúttó þ.e. með sameign (stigagangar og geymslur) en birt meðalstærð íbúða er áætluð um 80-85 m2. Í skipulagi svæðis 1 er því lögð áhersla á blandaða byggð þar sem horft verður til fyrstu íbúða kaupenda. Ennfremur felst í því möguleiki á að skoðaðar verði nýjar "kaupleiguleiðir" á húsnæðismarkaðinum, í samræmi við áherslur Kópavogsbæjar.
Í tillögu að deiliskipulagi fyrir svæði 2 (Auðbrekka 1, 3 og 5 og Skeljabrekka 4 (Krókslóðin)) er gert ráð fyrir um 16.500 m2 í atvinnuhúsnæði auk bílgeymslu neðanjarðar sem er áætluð um 5.500 m2 að flatarmáli. Heildarbyggingarmagn á svæði 2 er því áætlað að hámarki 22.000 m2. Núverandi byggingarmagn á svæði 2 (Auðbrekka 1, 3 og 5) er samanlagt um 3.500 m2.
Samkvæmt fyrirliggjandi tillögu að deiliskipulagi á svæði 3 (Dalbrekka 2, 4 og 6 og Auðbrekka 7, 9-11 og 13-15) er miðað við að byggðar verði 76 íbúðir auk verslunar- og þjónustuhúsnæðis. Heildarbyggingarmagn á svæði 3 er áætlað um 15.500 m2 þar af um 7.000 m2 í verslun og þjónustu. Gert er ráð fyrir bílakjallara undir fyrirhuguðum byggingum og miðað er við 1,3 stæði á íbúð og 1,0 stæði á hverja 50 m2 í atvinnuhúsnæði. Á svæði 3 eru nú um 2.300 m2 í atvinnuhúsnæði. Í tillögu að deiliskipulagi svæðisins er miðað við að meðalstærð íbúða sé um 110 m2 brúttó þ.e. með sameign (stigagangar og geymslur) en birt meðalstærð íbúða er áætluð um 90-95 m2.
Tillögunni fylgir húsakönnun dags. í desember 2014 og umhverfisskýrsla frá verkfræðistofunni Mannvit dags. 23. ágúst 2015 þar sem fram koma áhrif breytingarinnar á umhverfisþættina andrúmsloft, ásýnd, útsýni, samfélag og eignir.
Tillaga er sett fram í skipulagsskilmálum og á deiliskipulagsuppdrætti ásamt greindargerð dags. 10. ágúst 2015 í mkv 1:1000.