Skipulagsnefnd

1245. fundur 22. september 2014 kl. 16:30 í Fannborg 6, fundarherbergi 2. hæð
Fundinn sátu:
  • Guðmundur Gísli Geirdal aðalfulltrúi
  • Kristinn D Gissurarson aðalfulltrúi
  • Margrét Júlía Rafnsdóttir aðalfulltrúi
  • Sigríður Kristjánsdóttir aðalfulltrúi
  • Sverrir Óskarsson aðalfulltrúi
  • Andrés Pétursson varafulltrúi
  • Helga Elínborg Jónsdóttir varafulltrúi
  • Birgir Hlynur Sigurðsson skipulagsstjóri
  • Smári Magnús Smárason starfsmaður nefndar
  • Þóra Jóhannesdóttir Kjarval starfsmaður nefndar
  • Gísli Norðdahl byggingarfulltrúi
Fundargerð ritaði: Þóra Kjarval arkitekt
Dagskrá

1.1409240 - Hlíðarvegur 57. Fyrirspurn v. nýbyggingar á lóð.

Lagt fram að nýju erindi frá Arkþing, f.h. lóðarhafa, vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á lóðinni við Hlíðarveg 57. Á fundi skipulagsnefndar 15.9.2014 var málinu frestað. Í breytingunni felst að einbýlishús frá árinu 1943 sem stendur á lóðinni í dag verði rifið og þess í stað reist fjórbýli. Áætluð stærð hverrar íbúðar verður 116m2 og heildarbyggingarmagn á lóð um 499m2 með nýtingarhlutfall 0,5. Nýtingarhlutfall á lóð í dag er 0,22. Bílastæði á lóð verða samtals átta eða tvö fyrir hverja íbúð sbr. erindi, uppdráttum og skýringarmyndum dags. 18.9.2014.
Skipulagsnefnd samþykkir með tilvísan til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að grenndarkynna framlagða tillögu fyrir lóðarhöfum við Hlíðarveg 51, 53, 55 60, 62, 64, 66, 109, 111, 113, 115, 117, 119 ásamt Bröttutungu 1, 3 og 5.

2.1210126 - Breiðahvarf 4/Funahvarf. Breytt deiliskipulag

Lögð fram tillaga skipulags- og byggingardeildar að breyttu deiliskipulag fyrir Breiðahvarf 4 og Funahvarf 3. Samkvæmt gildandi deiliskipulagi frá 2002 er gert ráð fyrir leikskóla á einni hæð á lóðinni Funahvarf 3 með aðkomu frá Funahvarfi. Í nýju Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 var landnotkun lóðarinnar breytt í íbúðarsvæði. Í framlagðri tillögu er gert ráð fyrir þremur raðhúsum á 0.6 ha svæði, á einni til tveimur hæðum, alls 11 íbúðir með innbyggðum bílskúr. Aðkoma verður frá Faxahvarfi. Grunnflötur fyrirhugaðra húsa er 90 til 140 m2.

Tillagan nær jafnframt til lóðarinnar að Breiðahvarfi 4 sem er liðlega 4.700 m2 að flatarmáli. Á lóðinni stendur einbýlishús á einni hæð byggt 1956, um 180 m2 að grunnfleti og tvær geymslur samtals liðlega 50 m2 byggðar 1956 og 1987 auk safns um 95 m2 byggt 1996. Samkvæmt gildandi deiliskipulagi lóðarinnar er heimilt að reisa 350m2 einbýlishús á einni til tveimur hæðum í stað einbýlishússins frá 1956. Þá er heimilt að reisa 645m2 hesthús með 16 stíum ásamt hlöðu og sýningar- og tamningaskóla. Leyfilegt heildarbyggingarmagn á lóð er um 1.200 m2 samkvæmt gildandi deiliskipulagi. Í breytingunni felst að núverandi byggingar á lóðinni standi óbreyttar en jafnframt verði afmarkaða nýjar lóðir fyrir tvö tveggja hæða parhús, þar sem grunnflötur hvors parhúss fyrir sig er áætlaður 180 m2 (2x90 m2) að stærð, í suðurhluta lóðarinnar með aðkomu frá Faxahvarfi og að auki tveggja hæða einbýlishús um 150m2 að grunnfleti á norður-austurhluta lóðarinnar með aðkomu frá Breiðahvarfi.

Lagt fram ásamt skipulagsskilmálum dags. 22.9.2014 og uppdrætti dags. 15.9.2014.
Skipulagsnefnd samþykkir með tilvísan til 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að auglýsa framlagða tillögu. Vísað til bæjarráðs og bæjarstjórnar.

3.1409395 - Aðalskipulag Kópavogs 2012-2024. Aðgerðaráætlun.

Lagt fram erindi skipulagsstjóra þar sem óskað er eftir heimild skipulagsnefndar til að hefja vinnu við aðgerðaráætlun í kjölfar nýs aðalskipulags. Í aðgerðaráætlun komi m.a. fram markmið aðalskipulagsins, nánari útfærsla leiða, forgangsröðun þeirra, tilgreina ábyrgðaraðila, og til að tryggja að fyrirliggjandi verkefni séu sett tímanlega á fjárhags- og framkvæmdaáætlun. Aðgerðaráætlunin verður unnin þvert á deildir og svið bæjarins og stefnt að því að hún verði uppfærð árlega. Á fundi skipulagsnefndar 15.9.2014 var málinu frestað til næsta fundar.
Samþykkt. Vísað til bæjarráðs og bæjarstjórnar.

4.1409209 - Vesturhluti Kársness. Deiliskipulag

Lagt fram erindi skipulagsstjóra dags. 15. september 2014 þar sem óskað er heimildar skipulagsnefndar til að hefja vinnu við gerð deiliskipulags af vesturhluta Kársness. Nánar tiltekið mun deiliskipulagssvæðið ná til svæðisins umhverfis Kópavogshöfn og hluta athafnasvæðisins norðan og austan þess meðfram Vesturvör og norðan og vestan Kársnesbrautar. Á fundi skipulagsnefndar 15.9.2014 var málinu frestað til næsta fundar.
Samþykkt. Skipulagsnefnd verði reglulega upplýst um framvindu verkefnisins. Vísað til bæjarráðs og bæjarstjórnar.

5.1409252 - Bryggjuhverfi á Kársnesi. Færsla byggingarreita.

Lagt fram erindi Byggingarfélags Gylfa og Gunnars dags. 12.9.2014 varðandi færslu byggingarreita í Bryggjuhverfinu á Kársnesi. Í breytingunni felst að byggingarreitir húsa sem standa við grjótgarðinn færast 3m til suðurs sbr. uppdráttum dags. 5.9.2014. Á fundi skipulagsnefndar 15.9.2014 var málinu frestað til næsta fundar.
Skipulagsnefnd telur umrædda breytingu ekki varða hagsmuni annarra en lóðarhafa og samþykkir því breytinguna með tilvísan til 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Vísað til bæjarráðs og bæjarstjórnar.

6.1409351 - Auðbrekkusvæði. Byggðar- og húsakönnun.

Lögð fram drög að byggðar- og húsakönnun dags. Í september 2014, fyrir þróunarsvæðið við Auðbrekku og Nýbýlaveg, merkt ÞR-2 í Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024.
Greinargerðin er könnun, greining, úttekt, mat og skráning bæjarumhverfis og einstakra húsa og gefur yfirsýn yfir þróunarsvæðið.
Lagt fram og kynnt.

Fundi slitið.