Öldungaráð

19. fundur 05. maí 2022 kl. 12:00 - 13:09 á Digranesvegi 1, Vatnsenda 1. hæð
Fundinn sátu:
  • Karen E. Halldórsdóttir formaður
  • Birkir Jón Jónsson aðalfulltrúi
  • Pétur Hrafn Sigurðsson, aðalmaður boðaði forföll og Bergljót Kristinsdóttir varafulltrúi, sat fundinn í hans stað.
  • Þórarinn Þórarinsson aðalfulltrúi
  • Sigurður Sigfússon, aðalmaður boðaði forföll og Ómar Kristinsson varafulltrúi, sat fundinn í hans stað.
  • Baldur Þór Baldvinsson aðalfulltrúi
Starfsmenn
  • Amanda Karima Ólafsdóttir deildarstjóri frístunda- og forvarnardeildar
  • Anna Klara Georgsdóttir yfirmaður þjónustudeildar aldraðra
Fundargerð ritaði: Anna Klara Georgsdóttir Deildastjóri þjónustu- og ráðgjafardeildar aldraðra
Dagskrá

Almenn mál - umsagnir og vísanir

1.2204449 - Félagsmiðstöðvar aldraðra. Breyting á skipuriti.

Á fundi sínum þann 25.4. 2022 vísaði velferðarráð vísaði málinu til umsagnar öldungaráðs.
Formanni öldungaráðs var afhentur undirskriftalisti þar sem íbúar að Boðaþingi mótmæla fyrirhuguðum breytingum. 137 einstaklingar skrifa undir listann.

Fulltrúar FEBK lögðu fram eftirfarandi bókun:
„Við fulltrúar Félags eldri borgara í Kópavogi í öldungaráði mótmælum eindregið öllum hugmyndum um þá breytingu að færa rekstur félagsheimilis eldri borgara í Boðaþingi frá Kópavogsbæ yfir til Hrafnistu/Naustavarar.
Við minnum á að það er hlutverk öldungaráðs að vera formlegur vettvangur samráðs og samstarfs við bæjarstjórn svo og nefndir og ráð Kópavogsbæjar um hagsmuni aldraða þar sem fjallað er um þjónustu við aldraða, framkvæmd þeirra og þróun. Sem fulltrúar í öldungaráði, hljótum við að mótmæla öllum hugmyndum og umræðum um breytingar á starfsemi eða umfangi félagsins án þess að félagið sjálft hafi þar aðkomu. Fækkun Félagsmiðstöðva eldri borgara úr þrem í tvær er vissulega stór ákvörðun. Í raun stórfurðulegt að slíkar hugmyndir séu til umræðu, án aðkomu Félags eldri borgara í Kópavogi.
Baldur Þór Baldvinsson
Ómar Kristinsson
Þórarinn Þórarinsson“

Karen E. Halldórsdóttir, Birkir Jón Jónsson og Bergljót Kristinsdóttir lögðu fram eftirfarandi bókun:
"Við hörmum að upplýsingar um samræður við Hrafnistu/Naustavör hafi borist íbúum í Boðaþingi áður en málið var tekið fyrir í öldungaráði og löngu áður en nokkur ákvörðun hefur verið tekin. Velferðarráð vísaði málinu til öldungaráðs til umsagnar, samkvæmt réttu ferli mála, á síðasta fundi. Umsögn öldungaráðs átti svo að taka fyrir hjá velferðarráði áður en lengra yrði haldið. Því var hvorki tímabært né á forræði Naustavarar að upplýsa íbúa um að umræður væru í gangi á þessu stigi."

Í ljósi þess fjölda undirskrifta sem fyrir liggja og umræðna sem fram fóru á fundinum leggur öldungaráð til að viðræðum við Hrafnistu/Naustavör um mögulegar breytingar á rekstri félagsmiðstöðvar eldri borgara í Boðanum verði slitið.

Almenn mál - umsagnir og vísanir

2.2204193 - Reglur Kópavogsbæjar um stuðnings- og stoðþjónustu

Drög að reglum um stuðnings- og stoðþjónustu fyrir fullorðið fólk lagðar fram til umsagnar.
Velferðarráð vísaði drögunum til umsagnar notendaráðs í málefnum fatlaðs fólks og öldungaráðs á fundi sínum þann 11.4.2022.
Öldungaráð gerir engar athugasemdir við framlögð regludrög.

Fundi slitið - kl. 13:09.