Lögð fram að nýju tillaga skipulagsdeildar að breyttu Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 á miðbæjarsvæði Hamraborgar. Fyrirhugað skipulagssvæði afmarkast af Vallartröð í austur, Digranesvegi í suður, Digranesvegi 1, Hálsatorgi og Hamraborg 8 í vestur og Hamraborg 10 til 38 (sléttar tölur) í norður. Í gildandi aðalskipulagi er landnotkun á umræddu svæði, sem er um 4,3 ha að flatarmáli, skilgreind sem miðbæjarsvæði fyrir íbúðir, verslun og þjónustu. Í fyrirhugaðri aðalskipulagsbreytingu verður landnotkun svæðisins áfram skilgreind sem miðbæjarsvæði auk þess sem það verður skilgreint sem nýtt þróunarsvæði (þéttingarsvæði). Jafnframt er talnagrunni aðalskipulagsins breytt. Í framlagðri tillögu er miðað við að núverandi byggingar á lóðunum Fannborg 2, 4 og 6 (gömlu bæjarskrifstofurnar) á reit B1-1 í rammahluta aðalskipulagsins verði rifnar og nýjar byggingar reistar í þeirra stað fyrir allt að 270 íbúðir ásamt verslun og þjónustu alls um 18.000 m2. Nýtingarhlutfall ofanjarðar er áætlað um 2,04 og með bílastæðakjallara um 3,56. Hámarksfjöldi bílastæða á reitnum er 1 bílastæði fyrir hverja íbúð og fyrir verslunar- og þjónustuhúsnæði er 1 bílstæði fyrir hverja 100 m2 verslunar og þjónustuhúsnæðis á reitnum. Lágmarksfjöldi reiðhjólastæða á reitnum er 2 reiðhjólastæði á íbúð og 1 reiðhjólastæði fyrir hverja 100 m2 verslunar- og þjónustuhúsnæðis. Heimild er fyrir allt að 200 bílastæðum fyrir verslun- og þjónustu og aðliggjandi byggð á skipulagssvæðinu á reitnum í bílakjallara. Í tillögunni er auk þess gert ráð fyrir breytingum á sk. Traðarreit - vestur, reit B4 í rammahluta aðalskipulagsins, þar sem núverandi íbúðarhús við Neðstutröð 2, 4, 6, 8 og Vallartröð 1, 3, 5 og 7 verði rifin og nýtt húsnæði byggð í þeirra stað fyrir allt að 280 íbúðir auk húsnæðis fyrir verslanir og þjónustu alls um 22.000 m2. Nýtingarhlutfall ofanjarðar er áætlað um 2,42 og með bílastæðakjallara um 3,90. Hámarksfjöldi bílastæða á reit B4 er 1.25 bílastæði fyrir hverja íbúð á reitnum. Hámarksfjöldi bílastæði fyrir verslunar- og þjónustuhúsnæði er 1 bílstæði fyrir hverja 75 m2 verslunar og þjónustuhúsnæðis á reitnum. Heimild er fyrir allt að 200 bílastæðum fyrir verslun- og þjónustu og aðliggjandi byggð á skipulagssvæðinu á reitnum í bílakjallara. Lágmarksfjöldi reiðhjólastæða á reitnum er 2 reiðhjólastæði á íbúð og 1 reiðhjólastæði fyrir hverja 75 m2 verslunar- og þjónustuhúsnæðis. Gert er ráð fyrir bílastæðum neðanjarðar. Ekki eru ráðgerðar breytingar við Hamraborg 10 til 38 (sléttar tölur), við Fannborg 1 til 9 (oddatölur) og Digranesvegi 5 og 7 þ.e. á reitum B1-3 og B2 í rammahluta aðalskipulagsins. Tillagan er sett fram í greinargerð þar sem m.a. er fjallað um núgildandi stefnu skipulagsins, tengsl við aðrar skipulagsáætlanir s.s. svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins, forsendur og markmið fyrirhugaðra breytinga, umhverfisáhrif, samráð og kynningarferli. Er tillagan dags. Tillagan er sett fram í greinagerð dags. 11. ágúst 2020. Kynningartíma lauk 2. mars 2021. Þá lagðar fram athugasemdir og ábendingar sem bárust á kynningartímanum. Á fundi skipulagsráðs 15. mars 2021 var afgreiðslu málsins frestað og vísað til umsagnar skipulagsdeildar. Þá lögð fram umsögn skipulagsdeildar dags. í apríl ásamt samantektum.
Viðaukatillaga:
"Bæjarstjórn Kópavogs samþykkir að efnt verði til opinnar hugmyndasamkeppni á útfærslu Reykjanesbrautar milli Skógarlindar og Arnarnesvegar. Hugmyndin skal taka tillit til allra ferðamáta og fela í sér útfærslu um bætta hljóðvist og hvort mögulegt sé að þétta byggð við og yfir brautina með stokkalausnum án þess að skerða umferðaflæði við verslun og þjónustu í Smáranum. Samkeppnin skal unnin í samstarfi við Arkitektafélag Íslands og Verkfræðingafélag Íslands."
Bæjarstjórn samþykkir tillöguna með 11 atkvæðum.