Bæjarstjórn

1234. fundur 23. mars 2021 kl. 16:00 - 20:13 Fjarfundur - Microsoft Teams
Fundinn sátu:
  • Ármann Kristinn Ólafsson aðalfulltrúi
  • Margrét Friðriksdóttir aðalfulltrúi
  • Karen E. Halldórsdóttir aðalfulltrúi
  • Hjördís Ýr Johnson aðalfulltrúi
  • Jón Finnbogason varafulltrúi
  • Theódóra S Þorsteinsdóttir aðalfulltrúi
  • Einar Örn Þorvarðarson aðalfulltrúi
  • Pétur Hrafn Sigurðsson aðalfulltrúi
  • Bergljót Kristinsdóttir aðalfulltrúi
  • Birkir Jón Jónsson aðalfulltrúi
  • Sigurbjörg Erla Egilsdóttir aðalfulltrúi
Starfsmenn
  • Pálmi Þór Másson bæjarritari
Fundargerð ritaði: Pálmi Þór Másson bæjarritari
Dagskrá

Dagskrármál

1.1701668 - Stefnumótun Kópavogsbæjar - Heimsmarkmiðavísitala Kópavogs

Frá verkefnastjóra stefnumótunar, dags. 19. mars, lögð fram til samþykktar tillaga að heimsmarkmiðavísitölu Kópavogs. Bæjarstjórn frestaði málinu á fundi sínum þann 20. ágúst 2020.
Bæjarstjórn samþykkir með 8 atkvæðum og hjásetu Theódóru S. Þorsteinsdóttur, Einars A. Þorvarðarsonar og Sigurbjargar E. Egilsdóttur tillögu að heimsmarkmiðavísitölu Kópavogs.

Dagskrármál

2.2001228 - Sundlaug í Fossvogi

Frá bæjarstjóra, lögð fram drög að viljayfirlýsingu Kópavogsbæjar og Reykjavíkurborgar um staðsetningu Fossvogslaugar, ásamt erindi bæjarstjóra og borgarstjóra Reykjavíkur dags. 2. febrúar þar sem lagt er til að borgarráð og bæjarráð samþykki að efna til hönnunar og skipulagssamkeppni um bestu staðsetningu og útfærslu sundlaugarinnar miðsvæðis í Fossvogsdal. Bæjarráð vísaði afgreiðslu málsins til bæjarstjórnar á fundi sínum þann 11. mars sl.
Fundarhlé hófst kl. 17:39, fundi fram haldið kl. 18:07.

Dagskrártillaga Theódóru S. Þorsteinsdóttur um að vísa málinu til fjárhagsáætlunar:
Hafnað með 8 atkvæðum gegn samþykki Theódóru S. Þorsteinsdóttur, Einars A. Þorvarðarsonar og Sigurbjargar E. Egilsdóttur.

Bókun:
"Samstaða allra flokka í bæjarstjórn er inntak fréttatilkynningar bæjarstjóra Kópavogs um fjárhagsáætlun 2021 og hún þar sögð mikilvægari en nokkru sinni því heimsfaraldurinn hefur sett stórt strik í reikning bæjarsjóðs næstu þrjú árin. Flokkarnir sýndu nákvæmlega þá samstöðu í sameiginlegri bókun sinni þegar fjárhagsáætlun var samþykkt fyrir 14 vikum síðan í þverpólitískri sátt, sjötta árið í röð. Allir voru tilbúnir til að axla sameiginlega ábyrgð á henni. Þar var áhersla lögð á að verja grunnþjónustu með því að draga ekki úr rekstri, auka við útgjöld velferðarþjónustu og samþykkja sameiginlega stofnframkvæmdir fyrir 2021 og næstu þrjú ár á eftir.

Það skýtur því skökku við og hlýtur að valda vonbrigðum að ráðandi meirihluti leggi hér fram glænýja og kostnaðarsama tillögu um að bæjarstjórn samþykki viljayfirlýsingu um að efna til hönnunar og skipulagssamkeppni á nýrri sundlaug í Fossvogsdalnum. Sú framkvæmd gæti kostað um einn milljarð og er ekki á áætlun, hvorki til undirbúnings né framkvæmdar næstu þrjú árin. Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks krefst þess að hundsað sé samkomulag og þeirra eigið ákall um sameiginlega ábyrgð á fjármálum bæjarins og samstöðu allra flokka í bæjarstjórn til að troða að fullkomlega óábyrgri tillögu sem á sér engan stað í neinum áætlunum, hvorki til lengri eða skemmri tíma. Undirrituð hafna erindinu og óska eftir því að tillögunni verði vísað til gerðar fjárhagsáætlunar."
Theódóra S. Þorsteinsdóttir
Einar Ö. Þorvarðarson


Tillaga:
Bæjarstjórn samþykkir með 8 atkvæðum gegn atkvæðum Theódóru S. Þorsteinsdóttur og Einars A. Þorvarðarsonar og hjásetu Sigurbjargar E. Egilsdóttur, tillögu um viljayfirlýsingu vegna sundlaugar í Fossvogsdal.


Bókun:
"Þessi viljayfirlýsing felur í sér að Kópavogur og Reykjavík samþykki að efnt verði til hönnunar og skipulagssamkeppni um staðsetningu og útfærslu laugar í Fossvogsdal og felur hún því ekki í sér neina fjárhagslega skuldbindingu um uppbyggingu og rekstur á sundlauginni.

Framundan er vinna við skipulag og samningar við Reykjavík um uppbyggingu og rekstur á slíku mannvirki. Ef ásættanlegir samningar nást við Reykjavík tekur bæjarstjórn afstöðu um framkvæmdartíma og fjárhagslegar skuldbindinga á komandi árum."
Ármann Kr. Ólafsson
Margrét Friðriksdóttir
Karen E. Halldórsdóttir
Jón Finnbogason
Hjördís Ý. Johnson
Birkir J. Jónsson

Bókun:
"Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar eru sammála viljayfirlýsingunni sem hér liggur fyrir, en vilja leggja áherslu á mikilvægi þess að strax í upphafi verði málið kynnt öllum hagsmunaaðilum svo sem íbúum, skólasamfélaginu og íþróttasamfélaginu. Enn fremur að fram fari þarfagreining á verkefninu sem lögð verði fyrir bæjarstjórn."
Pétur H. Sigurðsson
Bergljót Kristinsdóttir

Fundarhlé hófst kl. 18:20, fundi fram haldið kl. 19:00

Bókun:
"Það að skrifa undir viljayfirlýsingu um hönnunarsamkeppni áður en búið er að máta þá framkvæmd við fjárhagsáætlanir næstu ára er óábyrg fjármálastjórn. Að samþykkja hönnunarsamkeppni er ákvörðun um að byggja sundlaug, annað er óheiðarleiki gagnvart íbúum. Það er líka óábyrgt að varpa þessari ákvörðun yfir á næsta kjörtímabil. Samþykkt gildi bæjarstjórnar Kópavogsbæjar um virðingu og heiðarleika á augljóslega ekki við þegar meirihlutinn hefur nú komið öllu samstarfi í bæjarstjórn í uppnám. Ef meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokks telur að engin fjárhagsleg skuldbinding sé falin í þessu erindi þá er þetta erindi í besta falli populismi ári fyrir kosningar. Undirrituð hafa áhyggjur af því hvernig Framsóknarflokkurinn ætlar sér að skila af sér stöðu bæjarstjóðs að loknu þessu kjörtímabili. Það að horfa fram hjá áætlunum og sinna ekki hlutverki sínu sem stjórnarformaður Sorpu hefur augljóslega ekki verið lærdómur. Það mun reynast undirrituðum erfitt að bera sameiginlega ábyrgð á bæjarsjóði með meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks þegar vinnubrögðin eru jafn óábyrg eins og í þessu erindi."
Theódóra S. Þorsteinsdóttir
Einar Ö. Þorvarðarson

Bókun:
"Lítil sem engin umræða hefur farið fram um sundlaug í Fossvogsdal í bæjarstjórn Kópavogs á þessu kjörtímabili. Fyrir liggur 8 ára gömul skýrsla starfshóps frá þarsíðasta kjörtímabili en bæjarfulltrúar hafa hvorki fengið kynningu á þeirri vinnu né rætt hana að neinu ráði, og ekkert í tengslum við gerð fjárhagsáætlunar. Undirrituð telur að ákvörðunin um sundlaug í Fossvogsdal þarfnist betri undirbúnings og meiri umræðu af hálfu bæjarstjórnar Kópavogs, og situr því hjá við afgreiðslu málsins."
Sigurbjörg E. Egilsdóttir

Fundargerð

3.2103001F - Bæjarráð - 3039. fundur frá 11.03.2021

Fundargerð í 23 liðum.
Lagt fram.
  • 3.8 2101495 Kynning á fýsileika samræmingar úrgangsflokkunar - skýrsla
    Frá SSH, dags. 20. janúar, lögð fram skýrsla um samræmingu úrgangsflokkunar á höfuðborgarsvæðinu til kynningar og umræðu hjá aðildarsveitarfélögum. Bæjarráð frestaði erindinu á fundi sínum þann 28. janúar sl. Niðurstaða Bæjarráð - 3039 Bæjarráð tekur undir afgreiðslu umhverfis- og samgöngunefndar og samþykkir með fimm atkvæðum, að leggja til við bæjarstjórn að samþykkt verði að hefja vinnu við samræmda úrgangsflokkun á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt tillögu A1 í skýrslu Recource Int. ehf. um fýslileika úrgangsflokkunar. Niðurstaða Bæjarstjórn samþykkir með 11 atkvæðum að hafin verði vinna við samræmda úrgangsflokkun á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt tillögu A1 í skýrslu Recource Int. ehf. um fýslileika úrgangsflokkunar.

Fundargerð

4.2103007F - Bæjarráð - 3040. fundur frá 18.03.2021

Fundargerð í 17 liðum.
Lagt fram.
  • 4.1 1904399 Fossvogsbrún 2 og Kleifakór 2-4, stofnstyrkur
    Frá fjármálastjóra, dags. 15. mars, lagt fram erindi vegna umsóknar Kópavogsbæjar um stofnframlag frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun vegna byggingar þjónustuíbúða að Fossvogsbrún 2a og Kleifakór 2-4. Niðurstaða Bæjarráð - 3040 Bæjarráð vísar málinu til afgreiðslu bæjarstjórnar. Niðurstaða Bæjarstjórn Kópavogs samþykkir með 11 atkvæðum að hluti af framlagi Kópavogsbæjar til byggingar á þjónustukjörnum að Fossvogsbrún 2a og Kleifakór 2-4 sé 12% stofnframlag sbr. lög um almennar íbúðir nr. 52/2016. Þessi stofnframlög skiptast sem hér segir:
    Fossvogsbrún 2a: 34.240.707 kr., þar af 16.464.534 kr. sem lóðagjöld (að núvirði) og 17.776.173 kr. í peningum.
    Kleifakór 2-4: 34.860.570 kr., þar af 16.464.534 kr. sem lóðagjöld (að núvirði) og 18.396.036 kr. í peningum.

Fundargerð

5.2103008F - Afgreiðslur byggingarfulltrúa - 311. fundur frá 11.03.2021

Fundargerð í 8 liðum.
Bæjarstjórn staðfestir afgreiðslur byggingarfulltrúa með 11 atkvæðum.

Önnur mál fundargerðir

6.2102026F - Barnaverndarnefnd - 117. fundur frá 03.03.2021

Fundargerð í 6 liðum.
Lagt fram.

Fundargerð

7.2103014F - Forsætisnefnd - 174. fundur frá 18.03.2021

Fundargerð í 2 liðum.
Lagt fram.

Önnur mál fundargerðir

8.2102011F - Hafnarstjórn - 118. fundur frá 22.02.2021

Fundargerð í 3 liðum.
Lagt fram.

Önnur mál fundargerðir

9.2103117 - Fundargerð nr 263. fundar Heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis frá 01.03.2021

Fundargerð í 36 liðum.
Lagt fram.

Fundargerð

10.2102012F - Lista- og menningarráð - 123. fundur frá 11.03.2021

Fundargerð í 16 liðum.
Lagt fram.

Fundargerð

11.2103009F - Menntaráð - 76. fundur frá 16.03.2021

Fundargerð í 6 liðum.
Lagt fram.

Bókun undir mál nr. 5 í fundargerð Menntaráðs:
"Ljóst er að tillaga Samfylkingarinnar um hinsegin fræðslu sem fram kom árið 2016 og hvernig unnið var með hana hefur haft góð áhrif á skólastarf og skólabrag í grunnskólum Kópavogs. Jákvætt er að sjá að forvarnarstefna skólanna gerir sérstaklega ráð fyrir hinsegin fræðslu, a.m.k. á unglingastigi. Mikilvægt er að formfesta hinsegin fræðslu í skólastefnu grunnskóla Kópavogs, ekki síst á yngri skólastigum. Jákvæð vinna gegn fordómum þarf að vera markviss, lifandi og í sífelldri endurskoðun."
Pétur H. Sigurðsson.
Bergljót Kristinsdóttir
  • 11.4 2003630 Menntasvið-skólaþjónusta, starfsreglur sérdeilda, sérúrræða og sérfræðinga
    Starfsreglur sérdeilda við grunnskóla Kópavogs ásamt inn- og útskriftareglum lagðar fram. Niðurstaða Menntaráð - 76 Menntaráð samþykkir með öllum greiddum atkvæðum starfsreglur sérdeilda við grunnskóla Kópavogs, inn- og útskriftarreglur fyrir einhverfudeildir í Álfhóls- og Salaskóla sem og inn- og útskriftarreglur fyrir sérdeild í Kópavogsskóla og inn- og útskriftarreglur í sérdeild Snælandsskóla. Niðurstaða Bæjarstjórn samþykkir með 11 atkvæðum starfsreglur sérdeilda við grunnskóla Kópavogs, innritunar- og útskriftarreglur fyrir einhverfudeildir í Álfhóls- og Salaskóla, innritunar- og útskriftarreglur fyrir sérdeild í Kópavogsskóla og innritunar- og útskriftarreglur í sérdeild Snælandsskóla.

    Málinu vísað til seinni afgreiðslu.

Önnur mál fundargerðir

12.2103570 - Fundargerð stjórnar Reykjanesfólkvangs frá 03.02.2021

Fundargerð í 1 lið.
Lagt fram.

Fundargerð

13.2102022F - Skipulagsráð - 94. fundur frá 15.03.2021

Fundargerð í 15 liðum.
Lagt fram.
  • 13.3 2006460 Lakheiði, Lækjarbotnar. Skógræktaráætlun 2020.
    Lögð fram að nýju skógræktaráætlun Kópavogs. Á fundi skipulagsráðs 7. september 2020 kynnti Þórveig Jóhannsdóttir skógfræðingur hjá Skógræktarfélagi Íslands drög að skógræktaráætlun á svæði sem lengi hefur verið skilgreint skógræktar- og uppgræðslusvæði í Aðalskipulagi Kópavogs. Skipulagsráð samþykkti að framlögð skógræktaráætlun verði send hagsmunaaðilum til umsagnar. Á fundi skipulagsráðs 1. febrúar 2021 voru lagðar fram umsagnir frá Minjastofnun Íslands, Skógræktinni, Landgræðslunni, Forsætisráðuneytinu, Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands.
    Þá lagt fram minnisblað garðyrkjustjóra dags. 10. mars 2021.
    Niðurstaða Skipulagsráð - 94 Skipulagsráð samþykkir tillögur að breytingum á skógræktaráætlun Kópavogs sem koma til móts við innsendar athugasemdir. Niðurstaða Bæjarstjórn samþykkir með 11 atkvæðum tillögur að breytingum á skógræktaráætlun Kópavogs.
  • 13.8 2102584 Vallargerði 22. Kynning á byggingarleyfi.
    Lagt fram að nýju að lokinni kynningu erindi Hrólfs Karls Cela arkitekts dags. 3. febrúar 2021 fh. lóðarhafa í Vallargerði 22. Á lóðinni er 113 m2 steinsteypt einbýlishús með sambyggðri 41,6 m2 bílgeymslu, byggt 1965. Óskað er eftir að reisa um 30 m2 viðbyggingu á suðurhlið hússins og koma þar fyrir herbergi ásamt baðherbergi. Uppdráttur í mkv. 1:100 og 1:500 dags. 3. febrúar 2021. Á fundi skipulagsráðs 1. mars 2021 var samþykkt með tilvísan til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að grenndarkynna framlagða tillögu fyrir lóðarhöfum Vallargerðis 20, 24, Melgerðis 19, 21, 23 og Kópavogsbrautar 58. Fyrir liggur undirritað samþykki lóðarhafa Vallargerðis 20, 24 og Melgerðis 19, 21, 23 fyrir breytingunni og því er kynningartími styttur. Niðurstaða Skipulagsráð - 94 Skipulagsráð samþykkir erindið. Vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Niðurstaða Bæjarstjórn staðfestir afgreiðslu skipulagsráðs með 11 atkvæðum.
  • 13.10 2103180 Haukalind 1-5. Breytt aðkoma að bílastæði.
    Lagt fram erindi lóðarhafa Haukalindar 1-5 dags. 2. mars 2021 þar sem óskað er eftir að lækka kantsteinn á milli húsanna þriggja. Með breyttu fyrirkomulagi verður aðkoma að bílastæðum betri sbr. skýringarmyndir. Samþykki lóðarhafana í raðhúsalengjunni liggur fyrir. Niðurstaða Skipulagsráð - 94 Skipulagsráð samþykkir erindið enda verði kostnaður greiddur af lóðarhafa. Vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Niðurstaða Bæjarstjórn staðfestir afgreiðslu skipulagsráðs með 11 atkvæðum.

Önnur mál fundargerðir

14.2103523 - Fundargerð 390. fundar Samstarfsnefndar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins frá 03.03.2021

Fundargerð í 2 liðum.
Lagt fram.
Fylgiskjöl:

Önnur mál fundargerðir

15.2103153 - Fundargerð 895. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 26.02.2021

Fundargerð í 38 liðum.
Lagt fram.

Önnur mál fundargerðir

16.2103070 - Fundargerð 222. fundar stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins frá 24.02.2021

Fundargerð í 2 liðum.
Lagt fram.

Önnur mál fundargerðir

17.2103071 - Fundargerð 223. fundar stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins frá 26.02.2021

Fundargerð í 10 liðum.
Lagt fram.

Önnur mál fundargerðir

18.2103053 - Fundargerð 336. fundar stjórnar Strætó frá 19.02.2021

Fundargerð í 5 liðum.
Lagt fram.

Önnur mál fundargerðir

19.2103498 - Fundargerð 521. fundar stjórnar SSH frá 01.03.2021

Fundargerð í 21 lið.
Lagt fram.

Önnur mál fundargerðir

20.2103604 - Fundargerð 99. fundar svæðisskipulagsnefndar frá 05.03.2021

Fundargerð í 8 liðum.
Lagt fram.

Fundargerð

21.2103005F - Velferðarráð - 80. fundur frá 08.03.2021

Fundargerð í 12 liðum.
Lagt fram.

Bókun:
"Það skýtur skökku við að fulltrúar meirihlutans í velferðarráði Kópavogs hafi ekki getað stutt tillögu fulltrúa Samfylkingarinnar, Donötu H. Bukowska og Krístínar Sævarsdóttur um að gera vefsíðu Kópavogs aðgengilegri fyrir Kópavogsbúa af erlendum uppruna og fólki með slakt stofnannalæsi. Í dag þegar flest sveitarfélög reyna að finna bestu lausnina til að jafna aðstöðu íbúa af erlendum uppruna við aðstöðu innfæddra situr meirihlutinn hjá í tillögu um að veita þessum íbúum bæjarins betri og aðgengilegri upplýsingar að réttindum og skyldum þegnanna."
Bergljót Kristinsdóttir
Pétur H. Sigurðsson

Bókun:
"Undirrituð ítrekar bókun sína undir málinu í bæjarráði."
Karen E. Halldórsdóttir.
  • 21.1 2011123 Reglur Kópavogsbæjar um stuðning við börn og fjölskyldur þeirra
    Drög að reglum um stuðning við börn og fjölskyldur þeirra lögð fram til afgreiðslu. Með fylgir greinargerð verkefnastjóra dags. 4.3.21. ásamt þar til greindum fylgiskjölum. Niðurstaða Velferðarráð - 80 Velferðarráð samþykkti framlagðar reglur fyrir sitt leyti.

    Ekki er gert ráð fyrir auknum kostnaði vegna þjónustunnar í fjárhagsáætlun en velferðarráð vekur athygli á að gera þarf ráð fyrir nýjum kostnaðarliðum við gerð fjárhagsáætlunar ársins 2022 til samræmis við reglurnar, enda verði þá búið að meta þörf fyrir þjónustuna að miklu leyti.
    Niðurstaða Bæjarstjórn samþykkir með 11 atkvæðum reglur um stuðning við börn og fjölskyldur þeirra.

Fundi slitið - kl. 20:13.