Frá skipulagsstjóra, dags. 18. október, að lokinni kynningu er lögð fram að nýju tillaga Landmótunar ehf. fyrir hönd lóðarhafa um að reisa fjórbýlishús á þremur hæðum með 6 bílastæðum á lóð í stað einbýlishúss byggt 1969, samtals 142,2 m2. Núverandi nýtingarhlutfall lóðarinnar er 0,12 miðað við lóðarstærð 1208,0 m2. Áætlað byggingarmagn fyrirhugaðs húss er 495 m2 og nýtingarhlutfall því áætlað 0,41. Á fundi skipulagsnefndar 18. júlí 2016 var samþykkt með tilvísan til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að grenndarkynna framlagða tillögu fyrir lóðarhöfum nærliggjandi lóða. Kynningartíma lauk 19. september 2016. Athugasemdir bárust frá Huldubraut 16, dags. 12.9.2016; Huldubraut 10, dags. 13.9.2016; Huldubraut 12, dags. 14.9.2016; Huldubraut 14, dags. 15.9.2016; Jóhanni Rafnssyni, Huldubraut 5, dags. 15.9.2016. Á fundi skipulagsnefndar 19. september 2016 var afgreiðslu málsins frestað og vísað til úrvinnslu skipulags- og byggingardeildar. Tillagan lögð fram að nýju ásamt umsögn skipulags- og byggingardeildar um fram komnar athugasemdir og ábendingar. Er umsögnin dags. 17. október 2016. Skipulagsnefnd samþykkti framlagða tillögu með tilvísan í niðurstöðu ofangreindrar umsagnar skipulags- og byggingardeildar dags. 17. okt. 2016 og vísaði málinu til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar.