Bæjarráð

2498. fundur 02. apríl 2009 kl. 15:15 - 15:15 Fannborg 2, bæjarráðsherbergi
Fundargerð ritaði: Páll Magnússon bæjarritari
Dagskrá

1.801010 - Garðabær. Umsögn um reiðstíg í Sandahlíð.

Frá Garðabæ, dags. 24/3, umsögn varðandi lagningu reiðstígs um Sandahlíð.

Bæjarráð vísar erindinu til sviðsstjóra framkvæmda- og tæknisviðs til afgreiðslu.

2.903192 - Vatnsendablettur 102 (nú Ennishvarf 13).

Frá bæjarlögmanni, dags. 1/4, umsögn, sem bæjarráð óskaði eftir á fundi sínum 26/3, um feril mála varðandi Ennishvarf 13, áður Vatnsendablett 102.

Lagt fram.

3.901301 - Lögfræðingur félagsþjónustu. Umsóknir og ráðning.

Frá félagsmálastjóra, dags. 30/3, varðandi umsóknir í starf lögfræðings félagsþjónustunnar. Lagt er til að Ása A. Kristjánsdóttir verði ráðin til starfans.

Bæjarráð samþykkir að ráða Ásu K. Kristjándóttur til starfsins.

4.811286 - Skógrækt og uppgræðsla í Selfjalli í Lækjarbotnalandi

Frá sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 31/3, umsögn um erindi Skipulagsstofnunar, dags. 26/3, varðandi fyrirhugaða skógrækt og uppgræðslu í Selfjalli.
Með tilvísun í 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 m.s.br. telur Kópavogsbær að fyrirhuguð skógrækt og uppgræðsla í Selfjalli hafi ekki í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

5.903126 - Umsókn um styrk vegna þátttöku í Ólympíukeppni í efnafræði.

Frá bæjarritara, dags. 26/3, umsögn, sem bæjarráð óskaði eftir á fundi sínum 19/3 sl., um styrkbeiðni frá Erlendi Jónssyni vegna þátttöku í Ólympíuleikum í efnafræði. Erlendur er stundakennari í efnafræði við HÍ og mun hafa umsjón með þjálfun íslenskra keppenda. Kópavogsbær hefur styrkt nemendur, sem taka þátt sem keppendur í Ólympíuleikum í stærðfræði með því að ráða þá í vinnu við Vinnuskólann. Hér er hins vegar um að ræða styrkumsókn vegna vinnutaps við þjálfun, því er lagt til að bæjarráð synji styrkbeiðninni.

Bæjaráð hafnar styrkumsókninni.

6.903224 - Forstöðumaður upplýsingatæknideildar. Umsóknir og ráðning.

Tillaga um ráðningu frá bæjarritara og starfsmannastjóra. Lagt er til að Sæmundur Valdimarsson tölvunarfræðingur og MBA verði ráðinn í starfið.

Bæjarráð samþykkir að ráða Sæmund Valdimarsson í starf forstöðumanns Upplýsingatæknideildar.

7.903229 - Öldrunarráð Íslands.

Frá Öldrunarráði Íslands, dags. 20/3, kynning á skýrslu um verkefnið "Eldra fólk á vinnumarkaði", einnig kynnt fyrirhuguð ráðstefna í samvinnu við Rauða kross Íslands, "Styrkur eldra fólks á erfiðum tímum", sem haldin verður föstudaginn 3. apríl.

Lagt fram.

8.904007 - Ísland Panorama. Borg gegn rasisma.

Frá Ísland Panorama, tölvupóstur dags. 30/3, kynning á verkefninu "Borg gegn rasisma" verður í Norræna húsinu 27. apríl nk.

Lagt fram.

9.903242 - Tampere 230 ára.

Frá bæjarstjóra Tampere, Finnlandi, dags. 26/3, boðið til hátíðahalda í tilefni 230. afmælis Tampere.

Frestað.

10.812069 - Samningur. Björgun ehf., Gylfi og Gunnar ehf. og Kópavogsbær.

Frá skrifstofustjóra framkvæmda- og tæknisviðs, frestað mál frá síðasta fundi bæjarráðs 26/3, samningur milli Björgunar, ehf. Gylfa og Gunnars ehf. og Kópavogsbæjar.

Bæjarráð samþykkir samninginn með fjórum atkvæðum. Einn fulltrúi sat hjá.

11.804474 - Lokaúttekt á Lindaskóla.

Frá Pétri Valdimarssyni, dags. 31/3, varðandi lokaúttekt á Lindaskóla, Fífunni og Versölum.

Bæjarráð vísar erindinu til sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs og byggingarfulltrúa til umsagnar.

12.903203 - Þrúðsalir 7. Lóðaskil.

Frá Vigni Steinþóri Halldórssyni og Svani Karli Grétarssyni, dags. 18/3, lóðinni að Þrúðsölum 7 skilað inn.
Lagt fram.

13.903157 - Tónahvarf II nr. 3. Lóðaskil.

Frá Þórhalli Tryggvasyni, f.h. Orkuvirkis og Böðvari Guðmundssyni, f.h. Eignarhaldsfélags GÁK ehf., lóðinni að Tónahvarfi II nr. 3 skilað inn.
Lagt fram.

14.904022 - Örvasalir 4, lóðaumsókn.

Vilhjálmur Björnsson sækir um byggingarrétt á lóðinni að Örvasölum 4.

Þrír umsækjendur voru um lóðina og dregið var úr umsóknum. Bæjarráð gefur Sigtryggi Rúnari Ingvasyni kost á byggingarrétti á lóðinni að Örvasölum 4.

15.904021 - Örvasalir 4, lóðaumsókn.

Sigtryggur Rúnar Ingvason og Inga Jóna Ingimundardóttir sækja um byggingarrétt á lóðinni að Örvasölum 4.

Þrír umsækjendur voru um lóðina og dregið var úr umsóknum. Bæjarráð gefur Sigtryggi Rúnari Ingvasyni kost á byggingarrétti á lóðinni að Örvasölum 4.

16.902171 - Örvasalir 4, lóðaumsókn.

Sölvi Þór Sævarsson og Inga Huld Sigurgeirsdóttir sækja um byggingarrétt á lóðinni að Örvasölum 4.



Þrír umsækjendur voru um lóðina og dregið var úr umsóknum. Bæjarráð gefur Sigrtryggi Rúnari Ingvasyni kost á byggingarrétti á lóðinni að Örvasölum 4.

17.904001 - Glaðheimar. Óskað eftir viðræðum um framtíð Glaðheimasvæðisins.

Bréf frá Kaupangi, dags. 31. mars, þar sem óskað er eftir viðræðum við Kópavogsbæ um framtíð Glaðheimasvæðis.
Bæjarráð vísar erindinu til bæjarstjóra og sviðsstjóra framkvæmda- og tæknisviðs til úrvinnslu.

18.904024 - Hraðakstur í Álfatúni.

Gunnsteinn Sigurðsson óskar eftir því að umferðarnefnd skoði aukna möguleika á að draga úr hraðakstri í Álfatúni.

19.902218 - Heimild til að bjóða út í opnu útboði grasslátt.

Frá deildarstjóra framkvæmdadeildar og garðyrkjustjóra, dags. 27/3, þriðjudaginn 24/3 voru opnuð tilboð í grasslátt í Kópavogi 2009. Lagt er til við bæjarráð að gerður verði samningur við Garðlist ehf. um svæði 1, 2 og 4 samtals kr. 13.606.800 og Odd Guðmundsson á grunni frávikstilboðs um svæði 3, kr. 3.300.640. Jafnframt er óskað heimildar bæjarráðs til að leita samninga við Garðlist ehf. um framlengingu verksamnings samkvæmt frávikstilboði.
Bæjarráð samþykkir erindið.

20.903012 - Skipulagsnefnd - 1162

21.904002 - Fundargerð stjórnar Reykjanesfólkvangs 29/1

22.901200 - Fundargerð stjórnar Strætó bs. 27/3

23.903011 - Umhverfisráð - 474

24.801003 - Liður 3. Bókun varðandi erindi Skotfélags Kópavogs, þar sem óskað er eftir aðstöðu til skotæfinga v

Á grundvelli umsagna frá ÍTK og skólanefnd leggur umhverfisráð til við bæjarráð að erindinu verði hafnað.

Bæjarráð staðfestir afgreiðslu umhverfisráðs og hafnar erindinu. Bæjarráð felur bæjarstjóra að skoða aðrar lausnir vegna erindisins.

25.904023 - Rekstraryfirlit Kópavogsbæjar - janúar til febrúar.

Frá bæjarstjóra, lagt fram rekstraryfirlit fyrstu tveggja mánaða ársins, án fjármagnsliða.
Lagt fram.

26.903230 - Bókun bæjarstjóra vegna menningarhátíðar.

Gunnar Ingi Birgisson, bæjarstjóri, lagði fram eftirfarandi bókun, sem boðuð var á síðasta fundi ráðsins þann 26. mars sl.:

"1. Menningarhátíðir, sem haldnar eru að hausti ár hvert, hafa verið undirbúnar af menningardeild bæjarins ásamt bæjarstjóra.

2. Menningarhátíðirnar hafa verið fjármagnaðar af

a) fyrirtækjum 40 – 50%
b) ríkinu ca. 10%
c) Kópavogsbæ 40 – 50%

3. Stjórnvöld á Írlandi tóku á móti fulltrúum Kópavogsbæjar af miklum höfðingsskap og munu senda sýningar, frábært listafólk og rithöfunda sem þeirra framlag til írskrar menningarhátíðar hér í Kópavogi.

4. Fullyrðingar um að forsendur fjárhagsáætlunar Kópavogsbæjar fyrir árið 2009 séu brostnar eru úr lausu lofti gripnar og greinilega óskhyggja Samfylkingarinnar.

5. Eins og mál standa í dag með lóðaúthlutanir er sú staða betri en vænta mátti.

6. Það er röng fullyrðing að grunnþjónusta hafi verið skert hjá Kópavogsbæ. En á sama tíma og fulltrúar Samfylkingarinnar gagnrýna framlög til menningarmála eru þeir tilbúnir að greiða málskostnað fyrir flokkssystkini sín, sem ætluðu að sækja fé í bæjarsjóð.

7. Bókun Samfylkingarinnar lýsir í hnotskurn viðhorfi til menningarmála í okkar ágæta bæjarfélagi.

Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri"


Hlé var gert á fundi kl. 15.37. Fundi var fram haldið kl. 15.54.


Fulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram eftirfarandi bókun:

"Vegna bókunar bæjarstjóra sem hann boðaði að hann myndi leggja fram á bæjarráðsfundi 26. mars sl.

a) Bæjarstjóri upplýsir ekki í hvers umboði hann fór til Írlands og hvar formleg ákvörðun var tekin í nefndum og ráðum bæjarins. Bæjarstjóri fullyrti í blaðagrein að hann hefði farið í umboði bæjastjórnar sem er rangt.

b) Vegna efnahagsástandsins er ólíklegt að fyrirtæki muni styrkja menningardaga með sama hætti og áður.

c) Enn er allsendis óljóst hvort forsendur fjárhagsáætlunar standist m.v. þau gögn sem liggja fyrir.

d) Við bendum bæjarstjóra á niðurskurð í grunnskólum um áramót þar sem forfallakennsla er skert, matur hækkaður, dregið úr foreldrasamstarfi og námsferðum nemenda og hefur verulegur viðbótarniðurskurður verið boðaður.

e) Eftirfarandi fullyrðing í bókun bæjarstjóra um að fulltrúar Samfylkingar séu "tilbúnir að greiða málskostnað fyrir flokkssystkini sín, sem ætluðu að sækja fé í bæjarsjóð" er uppspuni frá rótum og lýsir þankagangi bæjarstjóra frekar en margt annað.

Guðríður Arnardóttir, Hafsteinn Karlsson."


Bæjarstjóri boðar bókun á næsta fundi ráðsins.

27.903075 - Alþingiskosningar 2009

Frá bæjarstjóra, lagður fram listi, tillögur um aðila í kjörstjórnir í Kópavogi við Alþingiskosningarnar 25. apríl n.k.

Bæjarráð samþykkir tillöguna.

28.902023 - Fundargerð forvarnarnefndar 26/3

29.902181 - Opnuð tilboð í verkið yfirborðsmerkingar gatna.

Frá deildarstjóra framkvæmdadeildar, dags. 1/4, þriðjudaginn 17/3 sl., voru opnuð tilboð í verkið: Yfirborðsmerkingar gatna í Kópavogi 2009, skv. útboðsgögnum gerðum af Mannviti verkfræðistofu ehf. Lagt er til við bæjarráð að leitað verði samninga við lægstbjóðanda, Vegamál ehf.

Bæjarráð samþykkir erindið.

30.903035 - Opnuð tilboð í gatnagerð og veitulagnir við tengigötu við Vallarkór.

Frá deildarstjóra framkvæmdadeildar, dags. 1/4, miðvikudaginn 1/4 voru opnuð tilboð í verkið: Vallarkór 4 - 6 tengigata, gatnagerð og veitur, skv. útboðsgögnum gerðum af Verkfræðistofu Bjarna Viðarssonar ehf. Lagt er til við bæjarráð að leitað verði samninga við lægstbjóðanda, Arnarverk ehf.

Bæjarráð samþykkir erindið.

31.903103 - Opnuð tilboð í verkið Áningarstaður AV, Hamraborg 6a

Frá deildarstjóra framkvæmdadeildar, dags. 1/4, þriðjudaginn 31/3 voru opnuð tilboð í verkið: Áningastaðir AV, Hamaborg 6a, fullbúið hús, skv. útboðsgögnum gerðum af Alarka ehf. o.fl. Lagt er til við bæjarráð að leitað verði samninga við lægstbjóanda Silfurstein ehf. og að nauðsynlegri viðbótarfjárveitingu verði vísað til endurskoðunar fjárhagsáætlunar 2009.

Bæjarráð felur sviðsstjóra framkvæmda- og tæknisviðs að leita samninga við lægstbjóðanda.

32.811286 - Skógrækt og uppgræðsla í Selfjalli í Lækjarbotnalandi

Frá sviðsstjóra framkvæmda- og tæknisviðs, lögð fram drög að samningi milli Kópavogsbæjar kt. 700169-3759 annars vegar og Skógræktarfélags Kópavogs, kt. 601072-0179 hins vegar, ásamt Skógræktarfélagi Íslands kt. 600269-3809, um ræktun Landgræðsluskóga og uppgræðslu í Selfjalli í Lækjarbotnum.

Bæjarráð vísar afgreiðslu samningsdraganna til bæjarstjórnar.

33.903019 - Sumarstörf 2009.

Frá forstöðumanni vinnuskóla, dags. 29/3, lagt fram minnisblað, umsóknir um sumarstörf 2009.

Lagt fram.

34.903245 - Skólagarðar - gjaldskrá.

Frá garðyrkjustjóra, dags. 30/3, lögð fram gjaldskrá fyrir skólagarða Kópavogs sumarið 2009. Lagt er til að gjald í skólagarða verði óbreytt frá 2008, kr. 3.200 fyrir hvern garð.

Bæjarráð samþykkir gjaldskrána.

35.903246 - Garðaþjónusta Vinnuskólans - gjaldskrá.

Frá garðyrkjustjóra, dags. 30/3, lögð fram gjaldskrá vinnuskólans fyrir garðaþjónustu fyrir sumarið. Lagt er til að gjaldskrá fyrir sumarið 2009 verði óbreytt frá 2008.

Bæjarráð samþykkir gjaldskrána.

36.903247 - Garðlönd - gjaldskrá.

Frá garðyrkjustjóra, dags. 30/3, lögð fram gjaldskrá fyrir garðlönd 2009. Lagt er til að leigugjald verði óbreytt frá 2008, kr. 3.200 fyrir 50m2 garðland.

Bæjarráð samþykkir gjaldskrána.

Fundi slitið - kl. 15:15.