- Íbúar
- 0-6 ára börn
- Grunnskólaaldur
- Ungmenni
- Okkar Kópavogur
- Heimili
- Fatlað fólk
- Eldra fólk
- Félagsleg úrræði
- Stuðningur við börn og fjölskyldur þeirra
- Þjónustuver og neyðarsímar
- Mannlíf
- Umhverfi
- Stjórnsýsla
- Umsóknir og eyðublöð
Fundi slitið - kl. 18:00.
Takk fyrir!
Ábending þín er móttekin
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks beindu eftirfarandi fyrirspurn til meirihluta bæjarráðs:
"Hverjar eru ástæður fyrir uppsögn bæjarstjóra Guðrúnar Pálsdóttur síðastliðinn föstudag?
Var staðið að uppsögn í samræmi við lög um opinbera starfsmenn?
Hafði bæjarstjóri fengið áminningu í starfi?
Hver er áætlaður kostnaður bæjarsjóðs vegna uppsagnar bæjarstjóra?
Skriflegt svar óskast.
Ármann Kr. Ólafsson, Gunnar Ingi Birgisson"
Bókun frá fulltrúum Samfylkingar, Vinstri Grænna og Lista Kópavogsbúa:
"Bæjarstjóri situr í umboði meirihluta á hverjum tíma.Þegar staða og framtíð bæjarstjóra eru til umfjöllunar fer sú umræða eðlilega fram innan meirihlutans. Umræða um starfslok bæjarstjóra Kópavogs hefur því farið fram innan meirihlutans áður en gengið verður frá formlegum starfslokum.
Þegar núverandi meirihluti bæjarstjórnar Kópavogs var myndaður eftir kosningar 2010 var eining um það að fá Guðrúnu Pálsdóttur til að taka við starfi bæjarstjóra. Hún hafði starfað lengi hjá bænum sem fjármálastjóri og sviðsstjóri og töldum við það mikilvæga reynslu til að taka á þeim stóru verkefnum sem framundan voru, þ.e. endurskipulagning fjármála bæjarins og uppstokkun í stjórnsýslunni. Reynsla Guðrúnar í fjármálastjórnun hefur að sönnu reynst vel en hins vegar hefur sú staðreynd að Guðrún hefur starfað lengi hjá bænum gert henni erfitt fyrir að fylgja eftir breytingum innan stjórnsýslunnar. Þar sem brýnt er að þær gangi hratt og vel fyrir sig töldum við einsýnt að annar einstaklingur þyrfti að taka við því verkefni. Sú ákvörðun var erfið en eigi að síður nauðsynleg. Við urðum því sammála um að hún léti af starfi bæjarstjóra. Við tökum skýrt fram að ekki er um trúnaðarbrest að ræða og hörmum að í umræðu um málið í fjölmiðlum hefur verið veist ómaklega að persónu Guðrúnar.
Guðríður Arnardóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Rannveig Ásgeirsdóttir"
Rannveig Ásgeirsdóttir lagði fram eftirfarandi bókun:
"Y listi Kópavogsbúa hefur starfað með Guðrúnu Pálsdóttur og það samstarf gengið mjög vel. Við hörmum þá umræðu sem hefur verið um persónu hennar og störf síðustu daga því það er að ósekju.
Við meirihlutamyndun 2010 var það skýrt markmið Y listans að auglýsa eftir og ráða faglegan bæjarstjóra. Farin var sú samkomulagsleið að ráða Guðrúnu Pálsdóttur embættismann hjá bænum en var ekki okkar fyrsta val. Gildir þar ekki nein umræða um hennar persónu. Listinn benti þá á að með þeim umbótum í stjórnsýslu sem þyrftu að fara fram gæti verið óheppilegt að hún þyrfti þar að eiga við sína samstarfsmenn til ríflega 20 ára.Rannveig Ásgeirsdóttir"
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:
"Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins harma þá framkomu og vinnubrögð sem viðhöfð voru við uppsögn bæjarstjóra síðastliðinn föstudag. Það er ljóst með þessum aðgerðum að mannorð Guðrúnar Pálsdóttur hefur stórskaðast án þess að hún hafi nokkuð til saka unnið. Stjórnsýslan sem viðhöfð var í þessu máli er fyrir neðan allar hellur og er samanburð vart að finna nema hjá þessum sama meirihluta.
Guðrún Pálsdóttir hefur verið farsæll og góður starfsmaður bæjarins í aldarfjórðung. Af skyldurækni og góðum hug tók Guðrún Pálsdóttir að sér bæjarstjórastarfið sem bæjarstjóri allra bæjarfulltrúa og bæjarbúa.
Það er ljóst að formaður bæjarráðs Guðríður Arnardóttir hefur ekki stutt bæjarstjóra í störfum hennar sem skyldi og unnið leynt og ljóst að því að veikja hennar stöðu. Tilgangurinn var sá einn að komast sjálf yfir bæjarstjórastólinn en greinilegt að hún hafði ekki meirihlutastuðning við þetta mál og var gerð afturreka þrátt fyrir yfirlýsingar í fjölmiðlum.
Ármann Kr. Ólafsson, Gunnar Ingi Birgisson"
Hjálmar Hjálmarsson lagði fram eftirfarandi bókun:
"Undirritaður styður ekki þessa ákvörðun meirihlutans og harmar þá niðurstöðu sem orðið hefur í þessu máli.
Hjálmar Hjálmarsson"
Ómar Stefánsson lagði fram eftirfarandi bókun:
"Það liggur ljóst fyrir að ekki var staðið vel að málum og við blasir að ekki er enn ákveðið hvenær afhenda á uppsagnarbréfið. Búið er að ganga illa frama og óljóst er enn um lok þessa máls. Þetta er meirihlutanum til skammar.
Ómar Stefánsson"
Hjálmar Hjálmarsson lagði fram eftirfarandi bókun:
"Vegna bókunar Ómars Stefánssonar ítrekar undirritaður að hann styður ekki þessa framkvæmd meirihlutans.
Hjálmar Hjálmarsson"
Hlé var gert á fundi kl. 17:24. Fundi var fram haldið kl. 17:35.
Ólafur Þór Gunnarsson lagði fram eftirfarandi bókun:
"Það er ómaklegt og fáránlegt af Sjálfstæðismönnum að halda því fram að atburðarrás undanfarinna daga snúist um valdagræðgi Guðríðar Arnardóttur. Guðríður hefur þvert á móti lagt sig fram um að ná farsælli lendingu óháð sinni persónu.
Ólafur Þór Gunnarsson"