Mælingar

Heimsmarkmiðavísitölu Kópavogs er ætlað að gefa sýn á stöðu innleiðingar Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem lið í innleiðingu á heildarstefnu Kópavogsbæjar. 

Heimsmarkmiðin eru leiðarljós flestra þjóða heims til ársins 2030 og mynda þau jafnvægi á milli þriggja stoða sjálfbærrar þróunar; hinnar efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu og endurspeglast það í mælikvörðum vísitölunnar.

Vísitalan mælir þróun á stöðu innleiðingar á þeim Heimsmarkmiðum sem Kópavogur hefur forgangsraðað en þau eru 15 af 17 alls, auk þess að mæla þróun á stöðu innleiðingar á 36 yfirmarkmiðum Kópavogs sem forgangsraðað hefur verið úr 169 undirmarkmiðum Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. 

Heimsmarkmiðavísitalan byggir á mælikvarðasetti Sameinuðu þjóðanna fyrir Heimsmarkmiðin og aðferðafræði OECD um mælingar fyrir svæðisstjórnir og borgir um innleiðingu á Heimsmarkmiðunum.  Kópavogur hefur verið þátttakandi í verkefni OECD, ásamt um níu öðrum borgum eða landshlutum um heim allan, sem hefur það meðal annars að markmiði að búa til samanburðarhæfar mælingar milli sveitarfélaga. Hér má sjá skýrslu OECD um Kópavog.

Leitast er við að nota staðlaða mælikvarða eða mælikvarða sem nú þegar eru algengir við mælingu á Heimsmarkmiðunum. Fjöldi mælikvarða í vísitölunni er 94 en um 118 mælingar er að ræða þar sem sumir mælikvarðar eru notaðir oftar en einu sinni.  Hér er hægt að sjá nánar um aðferðafræði vísitölunnar.

Vísitalan er vistuð í upplýsingakerfi sem upplýsingatæknideild Kópavogs hefur þróað sérstaklega síðustu ár og ber nafnið Nightingale.

Skoða Heimsmarkmiðavísitölu Kópavogs

Stjórnsýsla Kópavogsbæjar starfar í samræmi við ISO9001 staðalinn og hefur gæðakerfi bæjarins hlotið utanaðkomandi vottun undanfarin ár.

Í tengslum við stefnumótun bæjarins var ákveðið að innleiða mælingar á starfsemi sveitarfélagsins samkvæmt öðrum ISO staðli 37120.  ISO37120 er staðall um sjálfbærni sem WCCD, alþjóðleg stofnun í Kanada, sér um. Kópavogur hefur fengið platínuvottun en það er hæsta mögulega vottun. Með því að uppfylla staðalinn er Kópavogur orðinn hluti af hópi sveitarfélaga á alþjóðavísu sem öll mæla á sama hátt um 100 vísa sem segja til um félagslegan, efnahagslegan og umhverfislegan árangur sveitarfélagsins.  WCCD hefur tengt mælikvarðana við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Nánari upplýsingar um mælingar fyrir Kópavog samkvæmt ISO37120 má finna á http://open.dataforcities.org/

Hér má finna bækling WCCD á ensku þar sem búið er að tengja mælikvarðana í ISO37120 við Heimsmarkmiðin.  

Kópavogur er að þróa Vísitölu barnvænna sveitarfélaga með Unicef og félagsmálaráðuneytinu. Þar er um að ræða vísitölu og mælaborð til að fylgjast með lífsgæðum barna.  
Mælaborð barn

Við greiningu á ytra umhverfi í stefnumótunarferli bæjarstjórnar var ákveðið að notast við vísitölu félagslegra framfara (VFF).  Vísitalan er á vegum SPI á Íslandi og hefur nú fengið nafnið Framfaravog. 

Vísitalan  er   byggð upp af samfélagslegum og umhverfislegum vísum sem ná yfir þrjár víddir félagslegra framfara. SPI á Íslandi hefur tengt mælikvarðana við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
SPI skýrsla.