Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 1. júní 2022 var lögð fram tillaga Byggingarfélags Gylfa og Gunnars hf. dags. 31. maí 2022 að breyttu deiliskipulagi Lundar. Í deiliskipulagi Lundar eru sýnd leiksvæði, körfuboltavellir og sparkvellir á opnum svæðum. Þrjú lítil leiksvæði hafa verið gerð en enginn boltavöllur. Í tillögunni er gert ráð fyrir að gert verði garðsvæði á opnu svæði norðan við Lund 90, sjá meðfylgjandi uppdrátt. Svæðið samanstendur af fjölbreyttara leiksvæði en þeim sem þegar eru komin í hverfinu, þrek- og útiæfingartækjum, púttvelli, lítilli sleðabrekku og dvalarsvæði umluktu gróðri. Gert er ráð fyrir að þetta svæði komi í stað fyrrnefndra boltavalla.
Áætlað er að Byggingarfélag Gunnars og Gylfa hf. geri svæðið nú síðar á árinu og það sé hluti af skilum fyrirtækisins á hverfinu til Kópavogsbæjar.
Embætti skipulagsfulltrúa samþykkti með tilvísan í 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að grenndarkynna framlagða tillögu fyrir lóðarhöfum í Lundi.
Kynningartíma lauk 6. júlí 2022, athugasemdir bárust.
Á fundi skipulagsráðs 15. ágúst 2022 var afgreiðslu frestað, vísað til umsagnar skipulagsdeildar.
Þá lögð fram umsögn skipulagsdeildar dags. 1. desember 2022 ásamt breyttri tillögu dags. 25. nóvember 2022. Í breytingunni felst að gert verður stórt leik- og útivistarsvæði norðan Lundar 88-60 og vestan Lundar 30, 66 og 72. Á svæðinu verður komið fyrir púttvelli um 540 m2 að stærð, æfingarsvæði til líkamsræktar á gervigrasi, gróðurbeðum, niðurgröfnu trambólíni og leiktækjum fyrir börn. Fallið er frá að koma fyrir boltavelli sem ráðgert var að koma fyrir á svæðinu sem og að koma fyrir körfuboltavelli sem fyrirhugaður var austanvert við Lund 86.
Umrædd breyting á deiliskipulagi Lundar nær aðeins til grænna svæða, leiksvæða og göngustíga á öllu skipulagssvæðinu. Á deiliskipulagsuppdrátt hafa verið innfærðar þær deiliskipulagsbreytingar sem átt hafa sér stað frá 12. febrúar 2008. Að öðru leyti er vísað í deiliskipulag Lundar samþykkt í bæjarstjórn 14. desember 2004 m.s.br. birt í B- deild Stjórnartíðinda 17. mars 2005.