Íslenskur kennsluhugbúnaður í Kópavogi

Björn Gunnlaugsson frá Kópavogsbæ, Halldór Þorsteinsson og Ólafur Stefánsson frá KeyWe.
Björn Gunnlaugsson frá Kópavogsbæ, Halldór Þorsteinsson og Ólafur Stefánsson frá KeyWe.

Kópavogsbær hefur gert samning við framleiðendur íslenska kennsluhugbúnaðarins KeyWe um að allir nemendur og kennarar í grunnskólum Kópavogs geti notað hugbúnaðinn.

 KeyWe er rafræn glósubók þar sem notandinn getur sett inn texta, myndir, myndskeið og margt fleira. Glósurnar eru settar í svokallaða kubba og myndast tengingar þeirra á milli. Hægt er að deila með öðrum notendum, kennarar geta notað KeyWe til að búa til námsverkefni fyrir nemendur og þeir geta haldið utan um námsvinnuna sína í KeyWe.

„Kópavogsbær fær með samningnum sérsniðinn skólaaðgang að KeyWe því venjulegur aðgangur er öllum opinn sem fara á keywe.is. Þessi séraðgangur auðveldar kennurum mikið lífið því hann fellur mjög vel að þeim kerfum sem verið er að nota nú þegar í skólum,“ segir Ólafur Stefánsson stofnandi KeyWe.

„Hugbúnaðurinn hefur verið prófaður í nokkrum skólum í Kópavogi undanfarin tvö ár með góðum árangri, samningurinn gefur skólunum frekari tækifæri til þróunar,“ segir Björn Gunnlaugsson verkefnastjóri spjaldtölvuinnleiðingar í Kópavogi.

Átak í breyttum kennsluháttum hefur staðið yfir í Kópavogi síðan haustið 2015 og hafa nú allir nemendur á mið- og unglingastigi fengið afhentar spjaldtölvur til að nota í skólanum sem og heima fyrir. Einnig eru allir kennarar með spjaldtölvur til afnota en nemendur á yngsta stigi geta fengið slíkar tölvur lánaðar í skólanum til að nýta í ákveðnum verkefnum. Alls eru hátt í 4.000 spjaldtölvur í notkun í grunnskólum Kópavogs.

Meðal markmiða átaksins í Kópavogi er að nám færist nær daglegum veruleika nemenda, að nemendur hafi í auknum mæli eitthvað um það að segja hvað og hvernig þeir læra, að kennsluhættir verði fjölbreyttari og nútímalegri og námið við hæfi hvers og eins nemanda. KeyWe hugbúnaðurinn byggir einmitt á því að hver og einn sníði notkun hans að sínum þörfum og fellur því vel að breyttum kennsluháttum í Kópavogi.