Bæjarráð

2723. fundur 13. mars 2014 kl. 08:15 - 10:15 í Fannborg 2, Bæjarráðsherbergi
Fundinn sátu:
  • Rannveig H Ásgeirsdóttir formaður
  • Ármann Kristinn Ólafsson aðalfulltrúi
  • Ómar Stefánsson aðalfulltrúi
  • Guðríður Arnardóttir aðalfulltrúi
  • Ólafur Þór Gunnarsson aðalfulltrúi
  • Hjálmar Hjálmarsson áheyrnarfulltrúi
  • Páll Magnússon bæjarritari
Fundargerð ritaði: Páll Magnússon bæjarritari
Dagskrá

1.14021111 - Breiðahvarf 4. Ósk um að fallið verði frá innheimtu gatnagerðargjalda vegna breytts skipulags

Frá bæjarlögmanni og sviðsstjóra umhverfissviðs, dags. 3. mars, umsögn sem óskað var eftir í bæjarráði þann 27. febrúar sl., varðandi innheimtu gatnagerðargjalda af Breiðahvarfi 4.

Bæjarráð samþykkir að innheimta gatnagerðargjalds verði með þeim hætti sem kveðið er á um í samningi við lóðarhafa dags. 11. september 2002, þrátt fyrir mögulega breytingu á deiliskipulagi.

2.1403136 - Núpalind 1, Yougo ehf., nýtt rekstrarleyfi. Beiðni um umsögn

Frá bæjarlögmanni, dags. 10. mars, lagt fram bréf sýslumannsins í Kópavogi frá 6. mars, þar sem óskað er umsagnar um umsókn Yougo ehf, kt. 570214-0980 um nýtt rekstrarleyfi til að mega reka veitingahús í flokki I, á staðnum Yougo, að Núpalind 1, 201 Kópavogi, skv. 10. gr. laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald og 23. gr. rgl. nr. 585/2007.

Bæjarráð samþykkir umsóknina fyrir sitt leyti og staðfestir að staðsetning er í samræmi við gildandi skipulag og afgreiðslutími er í samræmi við ákvæði 1. mgr. 25. gr. reglugerðar nr. 1127/2007 um lögreglusamþykktir.

3.1403170 - Nýbýlavegur 6-8, Serrano Ísland ehf,nýtt rekstrarleyfi. Beiðni um umsögn.

Frá bæjarlögmanni, dags. 10. mars, lagt fram bréf sýslumannsins í Kópavogi frá 6. mars, þar sem óskað er umsagnar um umsókn Serrano Ísland ehf, kt. 411002-2840 um nýtt rekstrarleyfi til að mega reka veitingastofu og greiðasölu í flokki I, á staðnum Serrano, að Nýbýlavegi 6-8, 200 Kópavogi, skv. 10. gr. laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald og 23. gr. rgl. nr. 585/2007.

Bæjarráð samþykkir umsóknina fyrir sitt leyti og staðfestir að staðsetning er í samræmi við gildandi skipulag og afgreiðslutími er í samræmi við ákvæði 1. mgr. 25. gr. reglugerðar nr. 1127/2007 um lögreglusamþykktir.

4.1311266 - Óskað eftir samstarfi við uppgræðslu árið 2014

Frá sviðsstjóra umhverfissviðs, dags. 11. mars, umsögn, sem óskað var eftir í bæjarráði þann 21. nóvember sl., um erindi samtakanna Gróður fyrir fólk í landnámi Ingólfs varðandi mögulegt samstarf við uppgræðsluverkefni.

Þar sem Kópavogsbær innheimtir ekki gjöld af hesthúsaeigendum vegna losunar á taði, og ábyrgð og kostnaður vegna losunar hvílir á hesthúsaeigandum, vísar bæjarráð samtökunum á að leita samstarfs við hesthúsaeigendur eða verktaka sem vinna á vegum eigenda. Bent er á að leita þarf leyfis Heilbrigðiseftirlits fyrir losun hrossataðs á afmörkuðum tíma á afmörkuðu svæði.

Hjálmar Hjálmarsson vék af fundi undir þessum lið.

Sviðsstjóri umhverfissviðs sat fundinn undir þessum lið.

5.14021150 - Svar við fyrirspurn um stærð landfyllingar á Kársnesi.

Frá sviðsstjóra umhverfissviðs, dags. 12. mars, upplýsingar sem óskað var eftir í bæjarráði þann 27. febrúar sl. varðandi stærð landfyllingar norðan megin á Kársnesi.

Lagt fram.

Sviðsstjóri umhverfissviðs sat fundinn undir þessum lið.

6.1311108 - Starfshópur um styrki til íþrótta- og tómstundamála

Frá íþróttafulltrúa, lagðar fram tillögur starfshóps um styrki til íþrótta- og tómstundamála.

Bæjarráð vísar tillögunum aftur til hópsins og óskar eftir afstöðu til forvarna- og lýðheilsustyrks til aldraðra sbr. afgreiðslu á erindi þar um.

7.1403031 - Álfhólsvegur 22a og b, stjórnsýslukæra vegna synjunar á breytingu á deiliskipulagi

Frá Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. febrúar, kæra vegna ákvörðunar bæjarstjórnar að synja um deiliskipulagsbreytingu á Álfhólsvegi 22a og b.

Bæjarráð vísar erindinu til bæjarlögmanns til úrvinnslu.

8.1403134 - Kaup og bygging á félagslegum leiguíbúðum. Svar við erindi Ómars Stefánssonar.

Frá innanríkisráðuneytinu, dags. 4. mars, óskað eftir afstöðu Kópavogsbæjar til erindis Ómars Stefánssonar varðandi samþykkt bæjarstjórnar um kaup og byggingu félagslegra leiguíbúða.

Bæjarráð vísar erindinu til bæjarritara til umsagnar.

9.1403135 - Beiðni um umsögn, vegna umsóknar um skeldýrarækt í Skerjafirði

Frá Matvælastofnun, dags. 3. mars, óskað umsagnar um umsókn Arctic Seafood ehf. um leyfi til tilraunaræktunar á skeldýrum í Skerjafirði.

Bæjarráð vísar erindinu til bæjarritara til umsagnar.

10.1403229 - Samstarfsverkefni til að sækja um styrk í Menntaáætlun ESB

Frá Markaðsstofu Kópavogs, dags. 12. mars, tillaga að samstarfsverkefni Kópavogsbæjar, Sundsambands Íslands og markaðsstofu Kópavogs um að sækja um styrk í Menntaáætlun ESB til að koma á samevrópsku átaksverkefni um að auka áhuga almennings á sundíþróttinni og efla lýðheilsu.

Bæjarráð vísar erindinu til íþróttaráðs til umsagnar.

11.1206613 - Úttekt á stjórnsýslu Kópavogsbæjar - stjórnsýsluúttekt

Guðríður Arnardóttir lagði fram eftirfarandi bókun:

"Undirritaðri er kunnugt um að nú liggur fyrir úttekt á starfsemi áhaldahúss Kópavogs. Þar ku vera lagðar til tillögur á breyttu skipuriti hússins.  Undirrituð furðar sig á því að skýrslan skuli ekki hafa verið kynnt bæjarráði nú þegar og er þess óskað að bæjarstjóri sendi bæjarfulltrúum þessa skýrslu strax í dag.

Guðríður Arnardóttir"

 

Ómar Stefánsson lagði fram eftirfarandi bókun:

"Það er ekkert furðulegt að bæjarfulltrúum hafi ekki verið kynnt skýrslan, þar sem hún var kynnt starfsfólki í gær.

Ómar Stefánsson"

12.1311106 - Fjármál stjórnmálasamtaka. Tillaga frá Guðríði Arnardóttur

Guðríður Arnardóttir lagði fram eftirfarandi tillögu:

"Vakin er athygli á því að tvö framboð í bæjarstjórn Kópavogs munu væntanlega ekki bjóða fram í kosningunum í vor.  Annað framboðið hefur ekki skilað ársreikningum og samkvæmt reikningum hins hafa fjármunir frá bænum ekki verið nýttir nema að hluta til í félagsstarf.  Það er vissulega í lögum um fjármál stjórnmálaflokka ekki gert ráð fyrir slíku.  Það er hins vegar ástæða til þess að endurskoða lögin ef reynsla þeirra sýnir að ástæða sé til.  Undirrituð leggur til að bæjarritara verði falið að draga saman staðreyndir þessu tengdar og taka saman reynslu Kópavogs og leggja fyrir bæjarráð og þar með meta hvort ástæða sé til þess að endurskoða lögin.  Til að mynda er það mat undirritaðrar að þarf að gera skýrari grein fyrir því hvernig framboðum er heimilt að verja þessum fjármunum.

Guðríður Arnardóttir"

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri, lagði til að tillögunni verði vísað til Sambands íslenskra sveitarfélaga til úrvinnslu. Var það samþykkt með þremur atkvæðum gegn tveimur.

Guðríður Arnardóttir lagði fram eftirfarandi bókun:

"Þetta er að verða þreytandi tilhneiging bæjarstjóra að úthýsa einföldum hlutum af þessu tagi.

Guðríður Arnardóttir"

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri, lagði fram eftirfarandi bókun:

"Þessi eltileikur við tvö framboð er fyrst og fremst þreytandi. Hins vegar má segja að þessi tillaga á almennt við um sveitarstjórnir landsins og því eðlilegt að Sambandið fjalli um þetta og veiti sitt álit.

Ármann Kr. Ólafsson"

Guðríður Arnardóttir lagði fram eftirfarandi bókun:

"Þessi tvö umrædd framboð hafa ekki sinnt lögbundinni skyldu sinni varðandi skil á ársreikningum ólíkt hinum framboðunum í bæjarstjórn Kópavogs. M.a. vegna þrálátra fyrirspurna minna skilaði annað framboðið loksins ársreikningum síðustu ára fyrir stuttu.

Það hefði verið heppilegra að bæjarritara yrði falið að taka saman staðreyndir tengdar reynslu okkar í Kópavogi og í framhaldi af því hefði mátt senda málið áfram til Sambands Íslenskra sveitarfélaga.

Guðríður Arnardóttir"

Fundi slitið - kl. 10:15.