Lögð fram að nýju tillaga að breyttu deiliskipulagi Glaðheima vesturhluta dags. 19. apríl 2021 með áorðnum breytingum dags. 16. ágúst 2021.
Skipulagssvæðið, sem er 8.6 ha að flatarmáli, afmarkast af veghelgunarsvæði Reykjanesbrautar til vesturs, til norðurs afmarkast það af fyrirhugaðri tengibraut sem liggur frá gatnamótum Bæjarlindar og Glaðheimavegar að Reykjanesbraut, Álalind 1-3 og til austurs af athafnasvæði við Askalind og Akralind og til suðurs afmarkast það af veghelgunarsvæði Arnarnesvegar. Í gildandi deiliskipulagi frá 2009 er gert ráð fyrir verslunar- og þjónustuhúsnæði á umræddu svæði samtals um 88.000 m2 ofanjarðar. Í breytingunni felst að áður fyrirhugaðri byggð um miðbik deiliskipulagssvæðisins er breytt úr atvinnuhúsnæði á 5-8 hæðum í 9 fjölbýlishús sem verða 3-12 hæða með um 468 íbúðum, leikskóla og opið svæði. Á norðurhluta skipulagssvæðisins nánar tiltekið við húsagötu A nr. 2-3 er fallið frá verslunar- og þjónustuhúsnæði á þremur efstu hæðum hússins (húsa) og þess í stað komið fyrir 32 íbúðum. Heildarfjöldi íbúða á svæðinu öllu verður að hámarki 500 íbúðir. Í miðju skipulagssvæðinu er gert ráð fyrir leikskóla. Suðvestan fyrirhugaðs Glaðheimavegar (á suðurhluta svæðisins) er gert ráð fyrir 7 lóðum fyrir verslunar- og þjónustuhúsnæði á 2 til 4 hæðum. Byggingarreitir, lóðir og lóðastærðir verslunar- þjónustu og athafnahúsa breytast sem og aðkoma og fjöldi bílastæða. Auk þess er gert ráð fyrir að lega tengibrautar um svæðið í framhaldi af Glaðheimavegi að Arnarnesvegi breytist. Heildarstærð atvinnuhúsnæðis með kjallara og bílageymslum er áætluð um 50.000 m2 en um 36.000 m2 án bílageymslna og heildarstærð íbúðarhúsnæðis með kjallara og bílageymslum er áætluð um 89.000 m2. Stærð leikskóla er um 1.500 m2. Heildar byggingarmagn á deiliskipulagssvæðinu er áætlað um 135.000 m2 þar af um 106.000 m2 án bílageymslna. Svæðisnýtingarhlutfall deiliskipulagssvæðisins miðað við heildarbyggingarmagn er áætlað um 1.57 og 1.22 án bílakjallara neðanjarðar. Gert er ráð fyrir einu stæði á hverja 75 m2 í verslun og þjónustu og einu stæði á hverja 100 m2 í atvinnuhúsnæði, geymslu - og kjallararými. Reikna skal með 1,2 stæðum á hverja íbúð með gestastæðum. Miðað við 2,5 íbúa á íbúð er áætlað að á svæðinu verði um 1.250 íbúar.
Á fundi skipulagsráðs 5. júlí 2021 voru lagðar fram athugasemdir, ábendingar og umsagnir sem bárust á kynningartíma og var málinu vísað til umsagnar skipulagsdeildar.
Í breyttu erindi dags. 19. apríl 2021 og breytt 16. ágúst 2021 er komið að hluta til móts við innsendar athugasemdir sem bárust á kynningartíma sbr. eftirtalin atriði:
Texta um vöktun á loftgæðum og spennistöðvar hefur verið breytt í greinargerð sem og texta um að gert verið minnisblað um vind og áhrif hans á hús sem hærri eru en 9 hæðir bætt inn í greinargerð. Auk þess hefur á skipulagsuppdrætti tengistöð verið komið fyrir við norðurlóðamörk húsagötu D nr. 4 og veghelgunarmörk gerð sýnilegri.
Þá lögð fram umsögn skipulagsdeildar dags. 16. ágúst 2021 um athugasemdir sem bárust á kynningartíma. Uppdráttur í mkv. 1:1000 sem inniheldur greinargerð og skýringarmyndir. Skipulagsskilmálar dags. 19. apríl og breytt 16. ágúst 2021. Skýringahefti B dags. 19. apríl 2021. Með tillögunni fylgir einnig minnisblað verkfræðistofunnar Mannvits um forsendur fyrir bílaumferð dags. 15. apríl 2021, umhverfismat og hljóðskýrsla dags. 19. apríl 2021 og skýrsla um áhrif nýs deiliskipulags Glaðheima á Heimsmarkmiðin dags. 29. 3 2021 en í þeirri sömu skýrslu er að finna umhverfismat Mannvit dags. 19. apríl 2021. Áhættumat vegna loftslagsbreytinga dags. 30. apríl 2021 frá verkfræðistofunni Mannviti. Skýrsla Mannvits um hljóðvist og áhrif mótvægisaðgerða dags. 7. maí 2021 og að lokum rýni á deiliskipulagstillögu á Glaðheimasvæði II.
Bæjarráð frestaði afgreiðslu málsins á fundi sínum þann 19. ágúst sl.