Bæjarráð

2709. fundur 21. nóvember 2013 kl. 08:15 - 10:15 í Fannborg 2, Bæjarráðsherbergi
Fundinn sátu:
  • Rannveig H Ásgeirsdóttir formaður
  • Ármann Kristinn Ólafsson aðalfulltrúi
  • Ómar Stefánsson aðalfulltrúi
  • Guðríður Arnardóttir aðalfulltrúi
  • Ólafur Þór Gunnarsson aðalfulltrúi
  • Hjálmar Hjálmarsson áheyrnarfulltrúi
  • Páll Magnússon bæjarritari
Fundargerð ritaði: Páll Magnússon bæjarritari
Dagskrá

1.1311246 - Nýr þjónustusamningur við Fjölsmiðjuna. Aðgerðir til að styrkja rekstrargrundvöll starfseminnar

Frá SSH, dags. 13. nóvember, lögð fram til staðfestingar tillaga að nýjum þjónustusamningi við Fjölsmiðjuna til eins árs, sem samþykkt var á fundi stjórnar SSH þann 2. september sl.

Bæjarráð samþykkir þjónustusamning við Fjölsmiðjuna einróma.

2.1311106 - Fjármál stjórnmálasamtaka. Tillaga frá Guðríði Arnardóttur

Guðríður Arnardóttir lagði að nýju fram tillögu sína frá 7/11 sl.

"Lög um fjármál stjórnmálaflokka nr. 162/2006 skylda sveitarfélög með fleiri en 500 íbúa að veita stjórnmálasamtökum sem fengið hafa a.m.k. einn mann kjörinn í sveitarstjórn eða hlotið a.m.k. 5% atkvæða í næstliðnum sveitarstjórnarkosningum árleg fjárframlög til starfsemi sinnar.

Forráðamönnum stjórnmálasamtaka ber að skila ársreikningum til Ríkisendurskoðunar fyrir 1. október ár hvert og þannig gera grein fyrir fjárreiðum sínum. Lögin skylda stjórnmálasamtök til að skila samstæðureikningi, þ.e. ársreikningi fyrir allar einingar sem undir þau falla.

Það er eðlileg krafa að bæjarráð Kópavogs sem fer með fjármálastjórn sveitarfélagsins óski eftir upplýsingum um hvernig fjármunum skattgreiðenda í Kópavogi er varið með slíkum framlögum. Þess vegna felur bæjarráð Kópavogs bæjarritara að kalla eftir staðfestingu Ríkisendurskoðunar á skilum þeirra stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa í bæjarstjórn Kópavogs á núlíðandi kjörtímabili. Jafnframt skuli bæjarritari senda þeim sömu stjórnmálasamtökum í Kópavogi ósk um að staðfestir ársreikningar Kópavogsfélaga þeirra skuli lagðir fram í bæjarráði og þannig gera rækilega grein fyrir með hvaða hætti fjármunir Kópavogsbúa hafi verið nýttir í þágu lýðræðis eins og lög kveða á um.

Skuli óskað svara við eftirfarandi spurningum: Hversu reglulega hvert og eitt framboð í Kópavogi hafi haldið opna fundi á liðnu kjörtímabili, hvar slíkir fundir hafi verið haldnir og með hvaða hætti slíkir fundir hafi verið auglýstir meðal bæjarbúa.

Hér er gengið lengra en lög gera ráð fyrir í þeirri viðleitni að stjórnmálasamtök geri grein fyrir fjármunum sínum enda mun þeim verða í sjálfsvald sett hversu ítarlega er svarað.

Guðríður Arnardóttir"

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri, lagði til að leitað verði umsagnar Sambands íslenskra sveitarfélaga á tillögunni varðandi þá þætti þar sem tillagan gengur lengra en lög segja til um varðandi eftirlit sveitarfélaga með starfsemi stjórnmálasamtaka.

Guðríður Arnardóttir lagði fram eftirfarandi bókun:

"Ég fæ ekki séð hvers vegna kallað er eftir umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Séu lögfræðileg álitamál í tillögunni geta lögmenn bæjarins svarað þeim.

Guðríður Arnardóttir"

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri, lagði fram eftirfarandi bókun:

"Þarna finnst mér vera hlutverk sveitarstjórna almennt og því er eðlilegt að leita til Sambandsins.

Ármann Kr. Ólafsson"

Bæjarráð samþykkir tillögu Ármanns Kr. Ólafssonar um að vísa fyrri tillögu Guðríðar Arnardóttur til umsagnar Sambands íslenskra sveitarfélaga. Samþykkt með þremur atkvæðum gegn tveimur.

Guðríður Arnardóttir lagði fram eftirfarandi tillögu:

"Bæjarritara verði falið að kalla eftir yfirliti frá Ríkisendurskoðun yfir þá stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa í bæjarstjórn Kópavogs og skilað hafa ársreikningum til Ríkisendurskoðunar. Upplýsingar um þetta verði lagðar fram í bæjarráði.

Guðríður Arnardóttir"

Hlé var gert á fundi kl. 9:26. Fundi var fram haldið kl. 9:28.

Bæjarráð samþykkir seinni tillögu Guðríðar Arnardóttur einróma.

3.1311361 - Stefna í sérúrræðum grunnskóla. Tillaga frá Hjálmari Hjálmarssyni.

Hjálmar Hjálmarsson lagði fram eftirfarandi tillögu:

"Bæjarráð beinir því til skólanefndar að taka til umræðu og umfjöllunar stöðu og stefnu í sérúrræðum grunnskólanna.

Hjálmar Hjálmarsson"

Bæjarráð samþykkir tillöguna með tveimur atkvæðum gegn einu. Tveir bæjarfulltrúar sátu hjá.

Fulltrúar meirihlutans lögðu fram eftirfarandi bókun:

"Næstbesti flokkurinn á fulltrúa í skólanefnd og honum er í lófa lagið að taka málið upp í nefndinni.

Ármann Kr. Ólafsson, Rannveig Ásgeirsdóttir, Ómar Stefánsson"

4.1311360 - Starfslok sviðsstjóra sérverkefna. Fyrirspurn frá Guðríði Arnardóttir.

Bæjarlögmaður og starfsmannastjóri sátu fundinn undir þessum lið.

 

Guðríður Arnardóttir óskar eftir skriflegri greinargerð um biðlaunarétt vegna skipulagsbreytinga.

5.1311359 - Viðtalstímar bæjarfulltrúa. Fyrirspurn um kostnað frá Guðríði Arnardóttur.

Guðríður Arnardóttir lagði fram eftirfarandi fyrirspurn:

"Undirrituð óskar eftir upplýsingum um kostnað við viðtalstíma bæjarfulltrúa, heildarkostnað. Þar með talið kostnað við yfirvinnu starfsmanna ef einhver er, kostnað vegna útvarps - og blaðaauglýsingar og yfirlit yfir fjölda bæjarbúa sem mætt hafa í viðtalstímana sl. 12 mánuði.

Guðríður Arnardóttir"

6.1301051 - Fundargerðir stjórnar Strætó bs 2013

Formaður bæjarráðs óskar eftir því að bæjarritari kalli eftir fundargerðum frá stjórn Strætó bs. sem ekki hafa borist sl. mánuði.

7.1311358 - Tekjur vegna gjaldskrárhækkana. Tillaga frá Ármanni Kr. Ólafssyni

Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri lagði fram eftirfarandi tillögu:

"Fjármála- og hagsýslustjóra verði falið að leggja fram útreikninga á fyrirhuguðum tekjum af hækkun leikskólagjalda og matargjalda í leik- og grunnskólum.

Ármann Kr. Ólafsson"

Guðríður Arnardóttir lagði fram eftirfarandi bókun:

"Þessar upplýsingar liggja nú þegar fyrir í fjárhagsáætlun og voru til umræðu við afgreiðslu hennar.

Guðríður Arnardóttir"

Bæjarráð samþykkir tillöguna með þremur atkvæðum. Tveir bæjarfulltrúar sátu hjá.

8.1307121 - Dalsmári 13. Stækkun Tennishallar og nýr rekstrarsamningur.

Frá Tennisfélagi Kópavogs, dags. 15. nóvember óskað eftir að stækka lóðina að Dalsmára 13.

Bæjarráð vísar erindinu til sviðsstjóra umhverfissviðs og sviðsstjóra menntasviðs til umsagnar.

9.1306296 - Ungt fólk 2013. Rannsóknarniðurstöður, hagir og líðan ungs fólks í Kópavogi

Frá mennta- og menningarrlmálaráðuneytinu, dags. 14. nóvember, niðurstöður úr æskulýðsrannsókninni Ungt fólk 2013.

Lagt fram.

10.1311311 - Styrkbeiðni frá Höndinni

Frá Höndinni, dags. 14. nóvember, styrkbeiðni til starfseminnar að upphæð 150.000 kr.

Bæjarráð vísar erindinu til sviðsstjóra velferðarsviðs til umsagnar.

11.1311266 - Óskað eftir samstarfi við uppgræðslu árið 2014

Frá Samtökunum Gróður fyrir fólk í Landnámi Ingólfs, dags. 12. nóvember, óskað eftir fundi varðandi fyrirhugað samstarf við Kópavogsbæ um nýtingu hrossataðs til uppgræðslu árið 2014.

Bæjarráð vísar erindinu til sviðsstjóra umhverfissviðs til umsagnar.

Hjálmar Hjálmarsson vék af fundi undir þessum lið.

12.1311319 - Athugasemdir við útboð á vegum Kópavogsbæjar

Frá Samtökum iðnaðarins, dags. 15. nóvember, athugasemdir við útboð á vegum Kópavogsbæjar.

Lagt fram.

Bæjarstjóri skýrði frá því að hann hefur þegar boðað fund með fulltrúum Samtaka iðnaðarins.

Guðríður Arnardóttir óskar eftir því að málið verði tekið fyrir á næsta fundi bæjarráðs.

13.1311011 - Skólanefnd, 18. nóvember

65. fundargerð í 6 liðum.

Lagt fram.

14.1311308 - Gjaldskrá slökkviliðs hbsv.

Frá stjórn slökkviliðs hbsv., dags. 15. nóvember, gjaldskrá SHS, sem samþykkt var á fundi stjórnarinnar þann 2. september sl., lögð fram til staðfestingar.

Bæjarráð vísar gjaldskrá slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins til afgreiðslu bæjarstjórnar.

15.1112164 - Deild 18 og 20 Lsp Kópavogstúni. Erindi frá velferðarráðuneyti.

Frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, afrit af bréfi til velferðarráðuneytisins, dags. 11. nóvember, varðandi vistundardeildir 18 og 20 við Landspítalann í Kópavogi.

Lagt fram.

16.1309280 - Framlög úr Jöfnunarsjóði 2014. Umsóknir og áætlanagerð.

Frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, dags. 15. nóvember, upplýsingar um áætlað framlag vegna sérþarfa fatlaðra nemenda í grunnskólum fjárhagsárið 2014.

Bæjarráð vísar erindinu til fjármála- og hagsýslustjóra og sviðsstjóra menntasviðs til úrvinnslu.

17.1311336 - Frumvarp til laga um lífsýnasöfn, 160. mál. Óskað eftir umsögn

Frá nefndasviði Alþingis, dags. 19. nóvember, óskað umsagnar um frumvarp til laga um lífsýnasöfn (söfn heilbrigðisupplýsinga og leitargrunnar), 160. mál.

Lagt fram.

18.1311312 - Frumvarp til laga um sveitastjórnarlög (eignarhlut í orkufyrirtækjum) sent til umsagnar

Frá nefndasviði Alþingis, dags. 18. nóvember, óskað umsagnar um frumvarp til laga um sveitastjórnarlög (eignarhlut í orkufyrirtækjum), 152. mál.

Bæjarráð vísar erindinu til bæjarritara til úrvinnslu.

19.1311339 - Starfshópur um stöðu húsnæðismarkaðarins

Skipan fimm fulltrúa í starfshóp um stöðu húsnæðismarkaðarins, þrír frá meirihluta og tveir frá minnihluta.

Bæjarráð skipar eftirtalda í starfshópinn:

Af A-lista: Ármann Kr. Ólafsson, Rannveig Ásgeirsdóttir, Ómar Stefánsson.

Af B-lista: Pétur Ólafsson, Ólafur Þór Gunnarsson.

Áheyrnarfulltrúi: Hjálmar Hjálmarsson.

20.1311108 - Starfshópur um styrki til íþrótta- og tómstundamála

Skipan fimm fulltrúa í starfshóp um styrki til íþrótta- og tómstundamála, þrír frá meirihluta og tveir frá minnihluta.

Bæjarráð skipar eftirtalda í starfshópinn:

Af A-lista: Aðalsteinn Jónsson, Héðinn Steingrímsson, Una María Óskarsdóttir.

Af B-lista: Kristín Sævarsdóttir, Arnþór Sigurðsson.

Áheyrnarfulltrúi: Hjálmar Hjálmarsson.

 

21.1304430 - Nafnanefnd, strætóskýli og hringtorg

Nafnanefnd tekur til starfa, skipuð Steingrími Haukssyni, Birgi Sigurðssyni, Sólveigu Jóhannsdóttur, Hreiðari Oddssyni og Helga Jóhannessyni. Formaður nefndarinnar er Steingrímur Hauksson.

Lagt fram.

22.1310020 - Umhverfis- og samgöngunefnd, 18. nóvember

42. fundargerð í 15 liðum.

Lagt fram.

23.1301049 - Stjórn slökkviliðs hbsv., 15. nóvember

126. fundargerð í 6 liðum.

Lagt fram.

Fundi slitið - kl. 10:15.